Ölvaður maður ógnaði fólki í Þórsmörk

Maður hélt konu sinni í gíslingu og ógnaði gestum í skála í Básum í Þórsmörk í gærkvöldi. Lögregla stöðvaði manninn þegar hann ók bíl sínum drukkinn úr Þórsmörk og veitti hann lögreglu mótspyrnu við handtökuna. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu útvarpsins frá lögreglunni á Hvolsvelli var mikið að gera hjá þeim í nótt. Öll tjaldstæði voru fullbókuð og mikið var um ölvun. Skálavörður í Básum í Þórsmörk hringdi í lögreglu klukkan 2 í nótt og lét vita að þar væri mikið ölvaður maður sem héldi konu sinni í gíslingu og ógnaði fólki á staðnum. Lögregla stöðvaði manninn við Merkurker og hafði hann ekið ölvaður úr Þórsmörk og var einn í bifreiðinni. Þegar handtaka átti manninn lét hann sér ekki segjast en var fluttur í fangageymslur og látinn sofa úr sér ölvímuna. Hann var yfirheyrður í morgun og sleppt að því loknu, að því er segir á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert