Aldurshópurinn 18-23 ára fær ekki aðgang á tjaldstæðum á Akureyri

Frá tjaldstæðinu við Þórsheimilið á Akureyri
Frá tjaldstæðinu við Þórsheimilið á Akureyri mbl.is/Margrét Þóra

Um komandi verslunarmannahelgi verður fjölskyldufólk á öllum aldri í forgangi á tjaldsvæðum Akureyrarbæjar við Þórunnarstræti og á Hömrum. Viðmið verða þó sett um aðgang einstaklinga á aldrinum 18-23 ára og geta þeir að öllu jöfnu ekki búist við að fá inni á tjaldsvæðunum þessa helgi. Rekstraraðilar tjaldsvæðanna hafa fullan stuðning bæjaryfirvalda til að vinna eftir þessari viðmiðunarreglu um aldursmörk að fenginni reynslu undanfarinna ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

„Í kynningarbæklingi hátíðarinnar er texti um 18 ára aldurstakmark á tjaldsvæðunum sem auðvelt er að misskilja í þessu samhengi. Auðvitað fær enginn yngri en 18 ára aðgang að tjaldsvæðunum nema í fylgd með fullorðnum eins og þar stendur en því til viðbótar eru ofangreind viðmið sett fyrir aldurshópinn 18-23 ára að fenginni reynslu. Mun lögreglan verða rekstraraðilum tjaldsvæðanna til aðstoðar í þessum efnum ef þörf krefur. Það er því vissara að tryggja sér gistingu áður en lagt er í hann.

Síðustu verslunarmannahelgar hefur verið gerð tilraun til að hafa sérstök tjaldsvæði fyrir ungt fólk á svæði Þórs við Hamar en í ljósi reynslunnar hefur verið ákveðið að bjóða ekki upp á sérstök tjaldsvæði fyrir þennan aldurshóp að þessu sinni. Mun lögregla hafa góðar gætur á opnum svæðum í bænum og vísa á brott þeim sem hugsanlega tjalda þar í óleyfi.

Dagskrá hátíðarinnar er miðuð við fjölskyldufólk og því er eðlilegt að það hafi allan forgang á tjaldsvæðum og tryggt verði að þar sé hægt að dvelja í friði og spekt. Að sjálfsögðu er ungt fólk einnig boðið velkomið á hátíðina, hvort heldur sem er um að ræða ungt fjölskyldufólk, unglinga í fylgd með forráðamönnum eða unga Akureyringa. Þessi hópur mun finna margt við sitt hæfi í dagskrá helgarinnar, auk þess sem efnt verður til áfengislausra dansleikja eins og í fyrra.

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa fulla trú á að hægt sé að halda sannkallaða fjölskyldu-hátíð þessa helgi í bænum og vonast til að sem flestar fjölskyldur komi og njóti alls þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða, góða veðursins og þeirrar fjölbreyttu fjölskyldudagskrár sem skipulögð hefur verið," að því er segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert