Flugvélin sem brotlenti í hrauninu suður af álverinu í Straumsvík í fyrrakvöld var kennsluvél. Um borð var flugkennari og nemandi hans.
Að sögn Braga Baldurssonar, stjórnanda rannsóknarinnar, féll vélin mjög snögglega en ekki er hægt að ákvarða úr hvaða hæð hún féll fyrr en ratsjárgögn frá Flugstoðum verða skoðuð. Mildi var að vélin lenti á afar grónu svæði í hrauninu.
"Atburðarásin var sú að vélin fór inn í byrjunarstig á spuna og snerist um lóðréttan ás í hálfhring og féll hratt til jarðar. Hún kom mjög bratt inn og lenti mjög aftarlega í hól sem var lækkandi niður í litla lægð. Þar snerist hún og fór á bakið."
Spurður hvort rétt viðbrögð hafi verið viðhöfð segir Bragi það nokkuð sem rannsóknin ein geti leitt í ljós. Henni ljúki ekki fyrr en staðfesting á hæð vélarinnar fáist ásamt fleiri upplýsingum.
Gert var ráð fyrir að ljúka vettvangsrannsókninni í gærkvöldi. Í dag verður vélin flutt í flugskýli Rannsóknarnefndar flugslysa þar sem nánari rannsókn mun fara fram. Svo verður gerð skýrsla um málið, hún lögð fyrir rannsóknarnefndina og svo gefin út.