Konu haldið niðri og þvagsýni tekið

Eftir Heiðu Björk Vigfúsdóttur - heida@bladid.net

Ekki eru til neinar starfsreglur hjá lögreglu þegar þvagsýni er tekið gegn vilja fólks en í umferðarlögum segir að lögregla geti fært einstaklinga til blóð- og þvagsýnarannsóknar.

Kona á fertugsaldri kærði lögregluna á Selfossi til ríkissaksóknara í maí síðastliðnum fyrir kynferðislegt ofbeldi þegar þvagsýni var tekið með þvaglegg án hennar samþykkis 4. mars síðastliðinn. Segir hún að gyrt hafi verið niður um sig og sér haldið nauðugri af karlkyns lögregluþjónum þegar sýnatakan fór fram. Hefur hún átt við mikla andlega erfiðleika að stríða eftir atvikið og er í meðferð hjá geðlækni sökum áfallaröskunar.

Ríkissaksóknaraembættið vísaði kæru konunnar frá þar sem ekki þótti grundvöllur fyrir því að hefja opinbera rannsókn. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, segist ekki kannast við það að konan hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og segir að læknir og hjúkrunarfræðingur hafi verið viðstaddir. „Sem betur fer er það fremur sjaldgæft að beita þurfi slíkum aðgerðum eins og að setja upp þvaglegg til að fá þvagsýni úr fólki. Hvað þetta mál varðar vísa ég til niðurstöðu ríkissaksóknara um að lögregla hafi staðið réttilega að verki í þessu máli."

Konan hefur verið ákærð fyrir að hafa keyrt undir áhrifum áfengis og fyrir að hóta lögregluþjónum og sjúkraflutningamönnum og fyrir að hafa veist að lögreglumanni þetta umrædda kvöld. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands á morgun.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að séu ekki til sérstakar starfsreglur hjá lögreglu um töku þvagsýna gegn vilja einstaklinga þurfi að bæta úr því. „Við ætlumst til þess af heilbrigðisstéttum og lögreglu að mannréttindi séu alltaf virt og að farið sé að fólki með fullri virðingu og það haldi reisn sinni."

Nánar í Blaðinu í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert