Húsið Lækjargata 4 gegnir mikilvægu hlutverki á Árbæjarsafni

Hagkaupshúsið, eins og það er oft kallað, skartar nú sínu …
Hagkaupshúsið, eins og það er oft kallað, skartar nú sínu fegursta enda verið gert upp. mbl.is/Brynjar Gauti
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is
Guðný Gerður Gunnarsdóttir borgarminjavörður segir að mikil eftirsjá yrði að húsinu Lækjargötu 4, yrði það flutt af Árbæjarsafni, enda gegni húsið mikilvægu hlutverki á safninu.

Húsið var flutt í Árbæjarsafn til varðveislu árið 1988. Í vinningstillögu um deiliskipulag í Kvosinni, sem kynnt var í fyrradag, er sú hugmynd sett fram að endurbyggja húsið á Lækjartorgi og lyfta því um eina hæð. Í umsögn um tillöguna segir að flutningur hússins frá Árbæjarsafni á Lækjartorg myndi án efa styrkja heildarmynd fíngerðra eldri húsa í Kvosinni.

Ekki áður komið til tals að flytja hús úr Árbæjarsafni

Guðný Gerður segir að hugmyndin um að flytja húsið sé ný og ekki hafi áður komið til tals að flytja einstaka hús úr Árbæjarsafninu. Guðný Gerður tekur fram að hún sé mjög ánægð með vinningstillöguna og finnist hún metnaðarfull. „Mér finnst að það sem lagt er til varðandi uppbyggingu á reitnum þar sem húsin sem brunnu í apríl standa, taki tillit til sögu húsanna og eldri byggðar á þessu svæði og sögu miðbæjarins í heild," segir Guðný Gerður. Það hljóti hins vegar að verða að meta hversu raunhæft það sé að flytja hús sem búið sé að gera upp á Árbæjarsafni „Þetta hús var flutt í Árbæjarsafn þegar það þurfti að víkja úr Lækjargötunni og það er búið að endurbyggja það hér. Það var endurbyggt og lögð mikil vinna og miklir peningar í þá endurgerð. Húsið gegnir mjög mikilvægu hlutverki hér í safninu. Það er hér við aðaltorgið sem er miðja safnsins. Þetta er sýninga- og samkomuhús og þarna er til dæmis góður samkomusalur þar sem fara fram viðburðir og einnig er í húsinu sýning um sögu Reykjavíkur og krambúð."

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert