Bjarni Ármannsson stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest

Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson. mbl.is/Jim Smart

Til­kynnt var form­lega á blaðamanna­fundi í dag, að Bjarni Ármanns­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Glitn­is, verði stjórn­ar­formaður Reykja­vík Energy In­vest, út­rás­ararms Orku­veitu Reykja­vík­ur. Þá kom fram að fé­lagið hyggst safna um 50 millj­arða króna hluta­fé til að hefja fjár­mögn­un alþjóðlegra jarðhita­verk­efna.

„Þetta er af­skap­lega spenn­andi fyr­ir mig að koma að þessu verk­efni. Ég er bú­inn að vera starf­andi í fjár­mála­geir­an­um allt mitt líf [...] Þetta er svo­lítið önn­ur nálg­un að koma inn í orku­geir­ann og nýt­ingu hans. En ég held að það sé nokkuð aug­ljóst mál að í upp­hafi 21. ald­ar­inn­ar, á tím­um þverr­andi kol­efn­isorku­fram­leiðslu og vax­andi meng­un­ar af þeirra völd­um, er áhersl­an að fær­ast sí­fellt meira í það form hvernig hægt er að nýta þessa orku­gjafa til vist­vænni og betri heims, og þá pen­inga og fjár­magn sem til þarf,“ sagði Bjarni.

Á blaðamanna­fundi, þar sem Reykja­vik Energy In­vest var kynnt, kom fram að fjöldi er­lendra og inn­lendra fjár­festa hafi lýst yfir áhuga á þátt­töku í fyr­ir­tæk­inu. Stefnt sé að því að gefa út nýtt hluta­fé í fyr­ir­tæk­inu og að Orku­veita Reykja­vík­ur verði kjöl­festu­fjár­fest­ir með um 40% hluta­fjár.

Reykja­vik Energy In­vest á hluti í út­rás­ar­fé­lög­un­um Enex, Enex-Kína, Gal­anta­term og Ice­land American Energy. Bjarni hef­ur keypt hluti í fé­lag­inu fyr­ir hálf­an millj­arð króna.

Guðmund­ur Þórodds­son verður for­stjóri fé­lags­ins næstu mánuði en hann fékk tíma­bundið leyfi frá störf­um sem for­stjóri Ork­veitu Reykja­vík­ur. Hann sagði á fund­in­um í dag, að fyr­ir­tækið hygg­ist jöfn­um hönd­um afla sér rann­sókn­ar- og nýt­ing­ar­leyfa á jarðhita­svæðum og reisa virkj­an­ir sem og að fjár­festa í þegar reist­um virkj­un­um, þar sem bæta má rekst­ur­inn. Þá mun það ekki láta fram hjá sér fara tæki­færi í nýt­ingu jarðhita til hús­hit­un­ar.

Auk Bjarna sitja Hauk­ur Leós­son, stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur, og Björn Ingi Hrafns­son, vara­formaður stjórn­ar OR, í stjórn Reykja­vik Energy In­vest.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert