Shengensvæðið stækkar til austurs á næsta ári

Stefnt er að því að ný aðildarríki Evrópusambandsins í Austur-Evrópu fái fulla og virka aðild að Schengensvæðinu en unnið hefur verið að því að veita þeim aðgang að gagnabönkum, sem gerir kleift að opna landamærin gagnvart þeim. Stefnt er að því, að vorið 2008 verði landamæri opnuð á flugvöllum en áður á landi og í höfnum.

Þetta kom fram á ráðherrafundi, sem haldinn var um Schengenmálefni í Brussel í dag. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sat fundinn.

Á fundinum var einnig rætt um leiðir til að hefta straum ólöglegra innflytjenda á Schengen-svæðið frá Afríku yfir Miðjarðarhaf eða til Kanaríeyja. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var skýrt frá því, að með samvinnu við stjórnvöld í Afríkuríkjum hefði tekist að draga úr bátsferðum með ólögmæta innflytjendur frá Afríku til Kanaríeyja. Á hinn bóginn hefði ekki tekist að ná sama árangri á Miðjarðarhafi og síðustu mánuði hefði til dæmis straumur innflytjenda aukist frá Alsír til Sardiníu.

FRONTEX, sameiginleg landamærastofnun Evrópu, þar sem Ísland er meðal aðila, lætur æ meira að sér kveða við aðgerðir á suðurlandamærum Evrópu en ráðherrarnir voru sammála um að meira þyrfti en landamæravörslu til að hefta straum þessara innflytjenda, þar sem hann mætti rekja til ófriðar og annarra hörmunga í Afríku.

Fyrir Schengen-ráðherrafundinn hittust dómsmálaráðherrar Íslands, Noregs og Sviss á fundi til að ræða sameiginleg Schengen-málefni EFTA-ríkjanna. Voru ráðherrarnir sammála um að sú skipan að falla frá forsæti af þeirra hálfu á fundum Schengen-ráðherranefndarinnar en fá þess í stað meiri og betri aðgang að efnislegri meðferð Schengen-málefna á öllum stigum þeirra, hefði gefið mjög góða raun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka