Íbúar við Laugardal hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir furðu og sorg yfir ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur um að leyfa byggingu tveggja hæða íbúðahúss á grænum reit í Laugardal.
Í yfirlýsingunni segir, að íbúar hafi mótmælt þessari fækkun grænna svæða í Laugardal með faglegum og vel ígrunduðum rökum. Hafi opnum grænum svæðum í Laugardal fækkað 10-15% undanfarin ár.
„Í fréttum og umfjöllun um þessa byggingu hefur verið reynt að stilla málum þannig upp að þeir sem ekki vilji þessa byggingu séu á móti geðfötluðum. Slíkur málatilbúningur, sem lesa má m.a. í yfirlýsingu Bjarkar Vilhelmsdóttur vegna málsins, er með öllu óþolandi því hvergi hefur komið fram í mótmælum íbúa að verið sé að mótmæla starfssemi hússins. Þvert á móti hefur ítrekað verið bent á að bygging sambýlis og verndun grænna svæði getur vel farið saman," segir m.a. í yfirlýsingu íbúanna.