Ingibjörg Sólrún: Orkuveitur verði í félagslegri meirihlutaeign

Ingibjörg Sólrún ávarpar flokksstjórnarfundinn í hádeginu í dag.
Ingibjörg Sólrún ávarpar flokksstjórnarfundinn í hádeginu í dag. mbl.is/Sigurður Jóns.

Í nýrri löggjöf er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að auðlindir verði skilgreindar sem þjóðareign og flutningskerfi orku verði í félagslegri meirihlutaeign, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í ávarpi á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

„Hins vegar er líka mikilvægt að efla samkeppni á raforkumarkaði varðandi aðra þætti sem snúa að orkuöflun, orkuframleiðslu og sölu. Þar er metnaður Íslendinga mikill að hasla sér völl á alþjóðlegum mörkuðum og sjálfsagt að greiða fyrir alþjóðavæðingu orkugeirans þannig að Íslendingar geti flutt út þekkingu sína og reynslu í beislun jarðhita og vatnsorku til annarra þjóða,“ sagði Ingibjörg ennfremur.

Háir stýrivextir Seðlabankans virtust „lítið bíta nema á einstaklinga sem geta ekki náð endum saman nema með skammtímalánum og fyrirtæki sem ekki eiga aðgang að erlendu lánsfé. Í mínum huga er ljóst að peningamálastefnan virkar ekki sem skyldi og mikilvægt að taka til endurmats þær forsendur sem lagt var upp með þegar lögin um Seðlabankann voru sett árið 2001. Svo virðist sem einhliða verðbólgumarkmið og stýrivextir sem stjórntæki virki ekki í litlu, opnu hagkerfi þar sem flæði fjármagns er algerlega frjálst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert