Öllu starfsfólki í frystihúsi Eskju sagt upp

Frá Eskifirði.
Frá Eskifirði. mbl.is/Helgi Garðarsson

Útlit er fyrir að öll vinnsla leggist af í frystihúsi Eskju á Eskifirði um áramót. Að sögn Hauks Björnssonar, framkvæmdastjóra Eskju hefur öllu starfsfólki verið sagt upp en 35 manns starfa í landvinnslu hjá Eskju. Skip Eskju verða áfram í eigu félagsins en stefnt er að því að selja bolfisktogara félagsins og kaupa annan minni. Togarinn hefur verið til sölu í þrjú ár en vonast Haukur til að eitthvað fari að rætast úr sölunni.

Haukur segir að um sársaukafullar aðgerðir sé að ræða en með þessu sé félagið að bregðast við kvótaskerðingu á þorski sem tilkynnt var í sumar. Að sögn Hauks var fólki greint frá því í júlí að þetta gæti gerst en nú sé það að verða að raunveruleika. Haukur segir að 5-6 starfsmenn Eskju séu þegar hættir og komnir í aðra vinnu og vonast hann til þess að fleiri fái aðra vinnu fljótlega. Ný tækifæri séu í boði á Austurlandi hvað varðar atvinnu með tilkomu álversins og þjónustu í kringum það. Því sé staðan kannski betri þar heldur en víða annarsstaðar, segir Haukur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert