Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins var gengið frá samningi við Bjarna Ármannsson, stjórnarformann REI, um að hann gæti selt 500 milljóna króna hlut sinn, sem hann keypti upphaflega í REI, á genginu 1,278 aftur á sama verði ef hann kysi að hverfa frá félaginu. Það þýðir þá í reynd að Bjarni er tryggður fyrir því að tapa ekki því fé sem hann lagði fram í upphafi.
Hvorki Bjarni Ármannsson né Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, vildu tjá sig um málið og sögðu mögulega samninga vera trúnaðarmál milli samningsaðila.
Svandís Svavarsdóttir kvaðst ekki hafa séð samning eða skilmála um kaup Bjarna Ármannssonar á hlut í REI. Hún sagði að stýrihópurinn væri að kalla eftir öllum gögnum í málinu og gögn varðandi þessi kaup væru eitt af því sem eftir væri að skoða. Í gær fékk stýrihópurinn heimild stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur til að kalla eftir öllum gögnum varðandi REI þar á bæ.