Hverjir stela mjólkurbrúsa?

Brúsarnir góðu í sumarbúningi í sumar.
Brúsarnir góðu í sumarbúningi í sumar.

Margir, sem aka veginn milli Grundarfjarðar og Stykkishólms, hafa tekið eftir skemmtilegri og hugmyndaríkri skreytingu á brúsapalli við afleggjarann heim að sveitabænum Eiði sem er í um 8 km fjarlægð frá Grundarfirði. Skreyting þessi vísar til þeirrar mjólkurframleiðslu sem fram fer á býlinu.

Síðastliðinn sunnudag þegar Arnór Kristjánsson, fyrrum bóndi á Eiði, hugðist sækja Morgunblaðið í póstkassann á pallinum, sá hann að einn mjólkurbrúsinn af þremur á pallinum var horfinn. Til þess að losa brúsann hefur þurft góðan skiptilykil því hann var rækilega boltaður niður í pallinn.

Hjónin sem nú standa fyrir búrekstri á Eiði, þau Guðrún Lilja Arnórsdóttir og Bjarni Sigurbjörnsson, voru að vonum svekkt yfir þessum atburði þegar fréttaritari Morgunblaðsins hitti þau að máli. Brúsinn, sem tekinn var, er mjög sérstakur því á honum var lok með festingum þannig að lokinu var smellt aftur en ekki eins og tíðkaðist á flestum brúsum að lokið væri tekið af.

Þau Guðrún og Bjarni sögðust ekki skilja tilganginn með þessum þjófnaði því hæpin not væru fyrir brúsann lengur. Þau sögðu það mjög algengt að ferðamenn staðnæmdust við brúsapallinn til að taka myndir. Sumir þeirra kæmu reyndar heim að bæ og óskuðu eftir því að fá mjólk til kaups þar væri einkum um að ræða ferðamenn frá mið-Evrópu sem segðust gjarnan gera slíkt á ferðum sínum um landbúnaðarhéruð í Evrópu. Guðrún og Bjarni sögðu að reglur hér á landi bönnuðu slíka sölu þótt á sama Efnahags- svæði væri, en þau gæfu fólki oft mjólk á flösku.

Nú er einn brúsinn horfinn.
Nú er einn brúsinn horfinn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka