Dan hjá Google elskar Dalvík

„Við erum mjög stolt af þessu. Mér heyrist á öllu að þetta sé mikilvægt forrit sem þarna er á ferðinni," segir Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík, en netrisinn Google hefur nefnt nýjan hugbúnað í höfuðið á Dalvík. Hugbúnaðurinn verður hluti af nýju stýrikerfi sem Google þróar fyrir næstu kynslóð farsíma. Hugbúnaðarverkfræðingurinn Dan Bornstein stendur fyrir nafngiftinni, en hann ku hafa mikið dálæti á Dalvík.

Samkvæmt heimildum 24 stunda var Bornstein á Íslandi síðasta sumar í fríi. Tók hann ástfóstri við Dalvík á ferðalagi sínu og gleymdi ekki bænum þegar hann sneri aftur í vinnuna hjá Google. Aðspurð hvort Dan Bornstein verði boðið til Dalvíkur á næstunni hlær Svanfríður dátt. „Nú veit ég ekki hvenær þessi maður hefur verið hér, en við munum svo sannarlega taka vel á móti honum ef hann vill koma," segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert