Aðalmeðferð í máli Smáís, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, og annarra rétthafasamtaka, s.s. SÍK, FHF og STEF, gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni lauk síðdegis í gær og var málið dómtekið. Búast má við dómi innan fjögurra vikna.
Dömkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum kleift að fá aðgang og deila innbyrðis höfundarvörðu efni – án samþykkis rétthafa. Jafnframt er krafist skaðabóta að álitum eða til vara að staðfest sé bótaskylda stefndu gegn stefnendum.
Vefsíðan torrent.is naut mikilla vinsælda meðan hún var rekin og þegar lögbannið var sett á hana voru um 26.500 notendur. Flestöll skráarskipti sem þar fóru fram voru á höfundarréttarvörðu efni, s.s. tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tölvuforritum og leikjum.
Stutt er síðan dómur féll í öðru máli tengdu skráarskiptum, svonefndu DC++ máli. Í því var stefndu gert að greiða sektir og tölvubúnaður gerður upptækur. Málin eru þó ekki sambærileg þar sem annars vegar er um að ræða einkamál – Istorrent – og hins vegar sakamál.