Ef nafn Krists gleymist verðum við munaðarlaus og andlega villt

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í nýársprédikun í Dómkirkjunni í dag að á morgni 21. aldar spyrji menn sig hvort kristinn siður sé að hopa fyrir afstæðishyggju og andlegu dómgreindarleysi og trúarlegu ólæsi. Sagði Karl að ef nafn Krists gleymdist, ef rödd hans drukknaði eða týndist í síbylju samtímans, ef frásögn, andleg leiðsögn og trúaruppeldi og iðkun kirkju Krists missi fótfestu á vettvangi dagsins, þá verðum við munaðarlaus og andlega villt. „Andleg anorexía verður hlutskipti barnanna okkar," sagði biskup.

Karl spurði hvort Jesú væri að dofna og hvort sú guðsmynd og mannskilningur sem hann boðaði að hverfa úr minningum okkar og reynsluheimi. Slíkt væri alvarlegt fyrir siðmenningu okkar, sálarheill og þjóðaruppeldi vegna þess að við lifum ekki af í gjörningarþokum afstæðishyggjunnar í guðvana heimi undir þöglum himni. Trúarþörf mannsins sé ólæknandi og muni leita sér svölunar. Mannanna börn þarfnist hins sanna Guðs, sem skapar, leiðbeinir, endurleysir, huggar og gefur von og kjark gegn hinu illa valdi og vilja. „Það sem við þurfum umfram allt á að halda er sú trú sem Jesús gefur. Við höfum séð mikið af því undanfarið að til er afvegaleidd trú, sem fjötrar með einsýni og ofstæki og nærir hatur og reiði og leiðir til hörmunga. En trúin sem Jesús Kristur kennir og gefur leysir, læknar. Hún er á bandi sannleikans og lífsins, elska til náungans, mildi og miskunnsemi, fyrirgefning og friður," sagði Karl. Nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert