LÍÚ segir útilokað að ganga í Evrópusambandið

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ og Kristján Ragnarsson formaður kynna …
Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ og Kristján Ragnarsson formaður kynna skoðanakönnum og afstöðu stjórnar LÍÚ til ESB-aðildar. mbl.is/Þorkell

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna segir útilokað að Íslendingar gangist undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og láti af hendi stjórn og yfirráð fiskimiðanna. Af þeirri ástæðu komi aðild að ESB ekki til álita. Samkvæmt skoðanakönnun sem LÍÚ hefur látið gera vilja nánast jafnmargir að Ísland gangi ekki í ESB og að Íslendingar gangi í sambandið.

Samkvæmt könnuninni, sem PricewaterhouseCoopers gerði fyrir LÍÚ, svörðu 36,6% aðspurðra þeirri spurningu játandi hvort þeir vildu að Ísland gengi í Evrópusambandið. 37,6% svöruðu neitandi, 21,8% sögðust hlutlausir og 4% sögðust ekki vita það eða vildu ekki svara. Meiri andstaða kom fram meðal kvenna en karla og andstaðan fór vaxandi eftir aldri. Einnig mældist meiri andstaða gegn aðild á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í yfirlýsingu, sem stjórn LÍÚ kynnti í dag um afstöðu stjórnarinnar til aðildar að ESB, segir m.a. að hagsæld hér á landi byggist að stærstum hluta á því að fiskimiðin séu nýtt af Íslendingum af hagsýni og á sjálfbæran hátt. Það komi ekki til álita að aðrir en Íslendingar sjálfir fari með forræði fiskimiðanna enda sé hér um að ræða mikilvægasta þáttinn í efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafi Íslendingar tryggt viðskiptahagsmuni sína gagnvart Evrópusambandinu í öllum meginatriðum. Við stækkun ESB til austurs þurfi að tryggja viðskiptakjör Íslands til framtíðar. Í ályktuninni segir m.a. að fleira en sjávarútvegsmál mæli gegn aðild að Evrópusambandinu. Íslenskt efnahagslíf mótist af íslenskum aðstæðum sem séu oft gjörólíkar því sem gerist í Evrópu. Hér á landi sé lögð áhersla á að atvinna sé næg, en í mörgum löndum ESB hafi verið mikið og viðvarandi atvinnuleysi. Sveiflur í veiði á mikilvægum fiskistofnum og verðsveiflur á mörkuðum geti krafist sérstakra aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þeir sem aðhyllist aðild að ESB haldi því fram að með henni lækki vextir og verð á landbúnaðarafurðum. Háir vextir valdi vissulega erfiðleikum, en geti verið nauðsynlegir tímabundið til að hindra ofþenslu. Við vaxtaákvarðanir sé mikilvægt að Seðlabanki Íslands bregðist skjótt við breyttum aðstæðum. Með sama hætti sé það sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að verja innlendan landbúnað sem leiði til hás verðs á landbúnaðarvörum. „Aðild að ESB er ekki skilyrði þess að innflutningshöftum og verndarstefnu í landbúnaði verði aflétt. Þar dugar ákvörðun íslenskra stjórnvalda." Því hefur verið haldið fram af þeim sem vilja aðild að ESB að með henni yrði stjórn efnahagsmála um margt betri. Innganga í ESB leiðir ekki til þess að mikil skuldasöfnun fyrirtækja og heimila minnki. Þvert á móti væri það varhugavert fyrir okkur Íslendinga að leggja út í miklar breytingar og tilraunastarfsemi með efnahagskerfi okkar við núverandi aðstæður. Ísland yrði auk þess að greiða háar fjárhæðir í sameiginlega sjóði ESB, fé sem er betur varið til uppbyggingar hér á landi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert