Dimmblá og Kristall leyfileg nöfn

Mannanafnanefnd hefur úrskurðað að heimilt sé að skíra stúlkur Víólettu og Dimmblá og drengi Kristal og Stirni en nöfnunum Sævarr og Heiðarr var hins vegar hafnað.

Í fundargerð mannanafnanefndar kemur fram að eiginnöfnin Víóletta, Kristall, Irmý, Kládía, Stirnir og Dimmblá taki öll eignarfallsendingu og teljist að öðru leyti fullnægja lögum um mannanöfn. Eru þessi nöfn þvi öll tekin á mannanafnaskrá.Nefndin hafnaði hins vegar nöfnunum Sævarr og Heiðarr. Segir nefndin að nafn hafi ekki unnið sér hefð í íslensku nema að það sé borið af tilteknum fjölda nafnbera. Þessi nöfn teljist ekki uppfylla viðmiðunarreglur mannanafnanefndar um hefð. Ritháttur sá, að rita nafn með tveimur errum í endingarlið, fari gegn almennum ritreglum íslensks máls og sé andstæður íslenskri hljóðþróun. Þó svo að ending þessi hafi verið eðlilegur ritháttur á ritunartíma fornsagna, hafi hún verið hún aflögð á 14. öld. Nefndin hefur tekið á mannanafnaskrá nokkur nöfn með -rr endingu sem hafa unnið sér hefð í íslensku máli en að öðrum kosti telur nefndin að slík ending teljist ekki í samræmi við mannanafnalög.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert