Kvartað yfir stærðfræðiprófi

mbl.is

Fjölmargar kvartanir bárust Námsmatsstofnun vegna samræmds prófs í stærðfræði sem nemendur í 10. bekkjum grunnskólanna þreyttu í gærmorgun. Töldu nemendur, og margir kennarar, prófið mjög þungt og misræmis hefði gætt milli þess og kennsluefnis í vetur.

Haraldur Finnsson, skólastjóri Réttarholtsskóla, sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa sent kvörtun til Námsmatsstofnunar. Hann taldi fyrri hluta prófsins einna mest hafa komið á óvart, þann hluta sem nemendur leystu án reiknivéla.

"Í fyrri hluta prófsins er verið að prófa almenna færni með tölur og núna fannst mér sá hluti aldeilis afleitur. Öllum bar saman um það. Það á ekki að leggja gildrur fyrir nemendur í prófi," sagði Haraldur.

Sigurður Þorsteinsson, stærðfræðikennari við Kópavogsskóla, tók undir með Haraldi og sagði að fyrri hlutinn hefði mátt vera léttari til að koma nemendunum í gang. Sigurður tók líka dæmi úr seinni hlutanum um hlutfallareikning (sjá meðfylgjandi mynd) sem sett hefði verið upp með öðrum hætti en kennt var í vetur.

Prófið í samræmi við námskrá

Sigurgrímur Skúlason, sviðsstjóri hjá Námsmatsstofnun, sagði við Morgunblaðið að jafnan bærust kvartanir að loknum samræmdum prófum en óánægjuraddirnar í gær hefðu verið óvenju háværar. Hann sagði að matsblöð kennara, sem þeir skila inn ásamt prófblöðum nemenda, yrðu skoðuð sérstaklega um leið og niðurstöður prófsins kæmu fram og dreifing einkunna.

Sigurgrímur sagðist ekki geta tekið undir þá gagnrýni að prófað hefði verið úr efni sem ekki hefði verið kennt. Prófið hefði verið samið samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og kennurum bæri sömuleiðis að vinna eftir þeirri námskrá.

Prófið má sjá á www.namsmat.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert