40 félagar í Falun Gong komu með flugi frá Kaupmannahöfn

Félagar í Falun Gong koma hér í Njarðvíkurskóla undir lögregluvernd.
Félagar í Falun Gong koma hér í Njarðvíkurskóla undir lögregluvernd. Ljósmynd/Víkurfréttir

Um 40 félagar í Falun Gong komu til landsins frá Kaupmannahöfn í hádeginu. Reiknað er með að þeir fái sömu meðferð og þeir 25 sem komu frá Bandaríkjunum og Kanada í morgun og eru í haldi í Njarðvíkurskóla. Fólkið hefur ekki fengið landvistarleyfi og er beðið frekari fyrirmæla frá dómsmálaráðuneytinu. Að sögn Óskars Þórmundssonar, yfirlögregluþjóns á Keflavíkurflugvelli, fékk fólkið að borða í Njarðvíkurskóla í hádeginu, fékk íslenskan mat.

Óskar sagði að búast mætti við að þeir félagar Falun Gong sem komu frá Kaupmannahöfn í hádeginu yrðu fluttir í Njarðvíkurskóla frá Leifsstöð síðar í dag. „Við bíðum frekari fyrirmæla frá dómsmálaráðuneytinu sem fundar nú um málefni fólksins. Það fer vel um það í Njarðvíkurskóla. Það fékk íslenskan mat í hádeginu, gúllas og kartöflumús. Ef það verður hér í nótt verða fengnar dýnur og teppi frá Almannavörnum Suðurnesja. Þetta er ekki fimm stjörnu hótel, en það ætti samt að fara vel um fólkið," sagði Óskar.

Þegar fólk steig út úr rútunni við Njarðvíkurskóla kynnti það pyntingar á meðlimum Falun Gong-hreyfingarinnar í Kína og dreifðu bæklingum sem kynntu Falun Gong regluna, sem er bönnuð í Kína.

Í morgun komu 25 félagar í Falun Gong með flugi frá Bandaríkjunum og um hádegi komu um 40 manns frá Kaupmannahöfn. Það verða því um 65 manns sem koma til með að gista í Njarðvíkurskóla í nótt, ef dómsmálaráðuneytið breytir ekki afstöðu sinni um að synja fólkinu um landvist.

Að sögn Óskars verða 4-5 lögreglumenn við gæslu í Njarðvíkurskóla í dag. Þá væru um 30 lögreglumenn að störfum í Leifsstöð vegna komu félaga Falun Gong til landsins.

Fólkið er á aldrinum frá 20-60 ára og talið að það hefði í hyggju að mótmæla mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda meðan á heimsókn forseta Kína hingað til lands stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert