Síðastliðin þrjú ár hefur hópur fólks í Býflugnaræktendafélagi Íslands, BÝ, gert tilraunir með ræktun á býflugum víðsvegar um landið með misjöfnum árangri. Hunangið sem til fellur er að mestu nýtt til eigin nota en eitthvað af því er selt.
Að sögn Egils Rafns Sigurgeirssonar, formanns BÝ, fengust um 70 kíló úr átta búum í fyrra en til stendur að flytja inn 20-30 bú í júní á næsta ári og getur hvert þeirra gefið af sér allt að 30-50 kg af hunangi.
Að sögn Egils er einungis líf í tveimur búum af 16 sem flutt voru inn í fyrra en búin eru nú í garðinum hjá Agli, sem býr í Vatnsenda í Kópavogi. Með því að flytja búin inn til landsins fyrri hluta sumars vonast býflugnabændur til þess að stofninn verði nógu stór til að lifa af íslenskt vetrarveður.
Að sögn Egils láta býflugurnar nágranna hans alveg í friði. "Þær eru ekkert í því að sveima í kringum fólk og trufla úti við. Þær fljúga bara að blómunum og heim aftur," segir Egill.