Breskir lögreglumenn reyna nú að leysa þá gátu hvers vegna hamstur ók leikfangabíl um göngugötu í enskum strandbæ.
Hamsturinn, sem kallaður er Snöggur, olli uppnámi þegar hann ók um götur Cleveley, nálægt Blackpool, í leikfangabíl. Um var að ræða líkan af kappakstursbíl, með stórum afturhjólum og litlum framhjólum og í bílnum hafði verið komið fyrir stigbretti. Þegar hamsturinn hljóp á brettinu ók bíllinn áfram á talsverðum hraða.
Fólk kom með hamsturinn í bílnum inn á lögreglustöð. Að sögn Reuters-fréttastofunnar tókst lögreglumönnum að fjarlægja Snöggan úr bílnum eftir að hann hafði gert nokkrar flóttatilraunir. Hamsturinn var síðan fluttur á dýrahótel og hvetur lögreglan eigandann nú til að gefa sig fram.