Þrír á slysadeild eftir kappakstur

Sportbíllinn er gjörónýtur en hann fór í loftköstum yfir brekkubrúnina …
Sportbíllinn er gjörónýtur en hann fór í loftköstum yfir brekkubrúnina í fjarska og kyrrstæðu bílana áður en hann staðnæmdist. mbl.is/Júlíus

17 ára ökumaður sportbíls var lagður inn á gjörgæsludeild Landspítalans vegna meiðsla sem hann hlaut þegar hann missti stjórn á bílnum í kappakstri við tvo aðra bíla á Hafnarfjarðarveginum seint í gærkvöldi. Tveir 18 ára piltar voru með í bílnum og voru þeir fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn var útskrifaður af gjörgæsludeildinni í dag en samferðamenn hans voru minna slasaðir.

Nota þurfti tækjabíl Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að ná piltunum út úr bílflakinu sem staðnæmdist inni á lóð við Kópavogsbraut 1b, skammt frá hjúkrunarheimili aldraðra. Var slysavettvangurinn ljótur að sögn lögreglunnar í Kópavogi.

Lögreglumenn sem komu akandi á móti eftir Hafnarfjarðarveginum urðu vitni að kappakstri bílanna, sem endaði með því að bíllinn, sem er af BMW-gerð, fór í loftköstum út af veginum og valt 30 metra og skemmdi tvo kyrrstæða bíla áður en hann stöðvaðist í trjábeði. Brak úr bílnum dreifðist um víðan völl og voru starfsmenn Kópavogsbæjar kallaðir út til að hreinsa til á vettvangi.

Í bílveltunni lagðist þakið á bílnum saman og þurfti að skera flakið í sundur til að komast að hinum slösuðu. Ökumaður og farþegar úr öðrum bílnum sem tók þátt í kappakstrinum gáfu sig fram við lögregluna en ekki er vitað hvað varð um þriðja bílinn. Ekki er grunur um ölvun við akstur en tildrög slyssins fara í rannsókn hjá lögreglunni. Biður lögreglan þá sem urðu vitni að atburðinum að gefa sig fram svo og ökumann þriðja bílsins sem tók þátt í kappakstrinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert