Flugfélagið Atlanta hefur fjölgað flugmönnum að undanförnu og hefur félagið m.a. annars ráðið flugmenn sem misstu vinnuna hjá Flugleiðum.
Atlanta hefur nógu mörgum flugmönnum á að skipa sem stendur en horfur eru á að félagið muni, ef eitthvað er, fjölga í flugmannaliði sínu á næstu mánuðum og misserum.
"Við erum með nægan fjölda af flugmönnum eins og stendur og höfum raunar stöðugt verið að fjölga í flugmannahópi okkar þótt við höfum svo sem ekki farið með það í fjölmiðla. Við höfum t.d. ráðið suma af þeim flugmönnum sem misstu vinnuna hjá Flugleiðum," segir Erling Aspelund, upplýsingafulltrúi Atlanta.
Erling segir að flugmenn hér á landi hafi þó yfirleitt ekki mikla reynslu af því að fljúga breiðþotum. "Hinir einu sem hafa reynslu að gagni af því að fljúga þotum eru flugmenn Flugleiða, Bláfugls og að hluta til flugmenn hjá Íslandsflugi. Flugleiðir hafa verið með Boeing-757 í rekstri og við getum notað flugmenn sem flogið hafa þeim á Boeing-767 með dálítilli milliþjálfun eða tegundarþjálfun eins og það er kallað. Þetta er þó ekki stór hópur. Hæfni, réttindi til fljúga ákveðnum tegundum og síðast en ekki síst reynsla flugmanna er vitaskuld misjöfn og það er eins með flugmenn og annað sérhæft starfsfólk að reynslan og atvinnusaga þess skiptir mjög miklu máli."
Erling segir að ekki sé vandamál að fá flugmenn með reynslu til starfa en sem betur fer gangi þó ekki margir íslenskir flugmenn með reynslu atvinnulausir eins og er.
"Við erum með átta Boeing 767-vélar og margir þeirra sem fljúga þeim vélum fyrir okkur hafa komið frá ýmsum flugfélögum, eins og til að mynda Brittania, Virgin Atlantic og City Bird, sem lentu í erfiðleikum í kjölfar atburðanna 11. september. Þá urðu hundruð flugmanna skyndilega atvinnulaus og við höfum ráðið úr þeim hópi."