Nýtt íslenskt flugfélag, sem stefnir að því að hefja áætlunarflug frá Keflavík til Lundúna og Kaupmannahafnar innan skamms, hefur ákveðið fargjöld næsta sumar.
Að sögn Jóhannesar Georgssonar, sem verður framkvæmdastjóri hins nýja flugfélags, verða ódýrustu fargjöldin til Kaupmannahafnar 14.600 kr. og 14.100 kr. til Lundúna miðað við flug fram og tilbaka með flugvallarsköttum. Um það bil ellefu þúsund sæti verða í boði á ársgrundvelli af ódýrustu fargjöldunum.
Næstu fargjöld fyrir ofan verða 19.600 krónur til Kaupmannahafnar og 19.100 til Lundúna miðað við flug fram og tilbaka með flugvallarsköttum. Um 28 þúsund sæti verða í boði á ársgrundvelli á þessum fargjöldum.
Að sögn Jóhannesar verður boðið upp á fleiri fargjaldaflokka og verða þeir lítið hærri. Flogið verður daglega til Lundúna og Kaupmannahafnar.
Hann segir að opinberað verði á næstunni hvenær flugfélagið muni hefja áætlunarflug. Þá verði jafnframt opinberað nafn og aðsetur.