Stjórnarsamstarfi lokið

Geir H. Haarde tilkynnti fréttamönnum í þinghúsinu að stjórnarsamstarfinu sé …
Geir H. Haarde tilkynnti fréttamönnum í þinghúsinu að stjórnarsamstarfinu sé lokið. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, tilkynnti nú að stjórnarsamstarfinu sé lokið. Sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn teldi þá kröfu, að Samfylkingin taki við forustu í ríkisstjórninni, vera óaðgengilega. Mun Geir ganga á fund forseta Íslands í dag til að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Geir sagðist ætla að ræða við formenn allra stjórnmálaflokkanna um framhaldið en teldi, að eina raunhæfa niðurstaðan nú væri einhverskonar þjóðstjórn þar sem  flestir eða allir flokkarnir kæmu að málum. Eðlilegt væri að stærsti stjórnmálaflokkurinn veitti slíkri stjórn forustu ef af yrði. 

Geir sagði að nú hefði það gerst, sem hann óttaðist í haust eftir bankahrunið, að stjórnarkreppa myndi bætast ofan á fjármála- og gjaldeyriskreppuna.

Hann gagnrýndi Samfylkinguna og sagði hana hafa liðast í sundur og væri raunar þrír flokkar. Sagðist Geir telja að Samfylkingin hafi ekki haft þrek til að ljúka þessu stjórnarsamstarfi með eðlilegum hætti. Núna skipti höfuðmáli að Íslendingar missi ekki taktinn og tapi ekki frekari tiltrú útávið og stjórnmálaöflin í landinu komi sér saman um að stjórna landinu með ábyrgum hætti fram yfir kosningar. 

Geir sagðist hafa sagt, að ef hans persóna væri vandamál væri hann tilbúinn að víkja úr embætti forsætisráðherra fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni flokksins. 

Geir þakkaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, fyrir samstarfið og sagði að engan skugga hefði borið á þeirra samskipti. Sagði Geir jafnframt, að þau Ingibjörg Sólrún hefðu lokið stjórnarsamstarfinu með kossi eins og þau hófu það fyrir rúmu einu og hálfu ári.

Innanhúsátökin í Samfylkingunni gerði samstarfinu erfitt fyrir

Geir segir að það hafi fyrst og fremst verið eitt skilyrði sem Samfylkingin setti sem var óaðgengilegt fyrir sjálfstæðismenn, það er að stjórnarforystan flyttist frá Sjálfstæðisflokki til Samfylkingarinnar. „Um það var ekki samið þegar gengið var til stjórnarsamstarfsins og kemur ekki til greina af hálfu okkar í Sjálfstæðisflokknum.”

 Geir sagði við fréttamenn í Alþingishúsinu að það hafi kannski ekki farið á milli mála að það hafa verið mikil innanflokksátök í Samfylkingunni upp á síðkastið.

 „Þau hafa gert okkur erfitt fyrir í samstarfinu. Ingibjörg Sólrún hefur þurft að vera töluvert fjarverandi vegna sinna aðstæðna og þetta hefur verið reynslan að fjarvera hennar hefur alltaf, að því er virðist, haft neikvæð áhrif á hópinn. Við sáum það í síðustu viku með fundinum sem haldinn var í Þjóðleikhúskjallaranum og öðrum atburðum á vettvangi Samfylkingarinnar að þar stefndi hugur manna í stjórnarslit."

Ekki hægt að gera kraftaverk á hverjum degi

Geir segist telja að það hafi verið málefnalegur grundvöllur fyrir áframhaldi. „Stjórnin hefur unnið vel og skipulega frá bankahruninu að undirbúa endurreisn og uppbyggingu í samfélaginu. Það hafa verið um það bil hundrað atriði eða  lagabreytingar, reglugerðarbreytingar og stjórnvaldsákvarðanir sem hafa komið til framkvæmda eða verið ákveðnar á þessum tíma. Það er heldur ekki hægt að gera kraftaverk á hverjum einasta degi. Allir sjá það en stundum stendur upp á okkur sú krafa að gera það.

Ég vil bæta því við að ég vil þakka Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur persónulega fyrir það samstarf sem við höfum átt. Sem ekki hefur borið skugga á. Ég tel að það samstarf hafi gefið afar góða raun og ég er þakklátur henni fyrir okkar persónulega samstarf á þessum tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið.

Það sem nú tekur við er það að ég mun hafa samband við forseta Íslands og ganga á hans fund. Vonandi seinna í dag til þess að biðjast lausnar fyrir mig og mitt ráðuneyti. Ég mun reyna að eiga fund með formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi til þess að fara yfir stöðuna í þeirra hóp og ég tel að eina raunhæfa niðurstaðan núna úr því sem komið er sé einhvers konar þjóðstjórn. Þar sem flestir ef ekki allir flokkarnir koma að.

Því miður hefur það gerst sem ég óttaðist allan tímann frá því að bankahrunið varð í byrjun október að stjórnarkreppa myndi bætast ofan á efnahagskreppuna og fjármálakreppuna. Því miður hefur þetta nú gerst. Ég tel að Samfylkingin hafi ekki haft þrek til að ljúka þessu samstarfi með eðlilegum hætti og ganga til kosninga í vor. Það verður að skrifast á hennar reikning en núna skiptir höfuðmáli að við missum ekki úr taktinn í efnahagsáætluninni sem er í gangi á okkar vegum og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Það skiptir mestu máli að við töpum ekki frekari tiltrú út á við og stjórnmálaöflin í landinu komi sér saman um að stjórna landinu með ábyrgum hætti fram yfir kosningar sem væntanlega verða í maí. Þetta er verkefnið núna framundan og við sjálfstæðismenn hlaupum að sjálfsögðu ekki frá því," sagði Geir við fréttamenn er hann tilkynnti um að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar væri lokið.

Stjórnarslitin vonbrigði

Geir sagði aðspurður að stjórnarslitin nú séu vonbrigði en hann hafi talið að ríkisstjórnin myndi sitja út kjörtímabilið. Það hafi verið fyllilega raunhæft þar til fyrir nokkrum vikum. Þá hefðum við getað komist í gegnum þann björgunarleiðangur sem við erum nú í og stillt hlutunum upp á nýtt og náð hér eðlilegu ástandi í þjóðfélaginu fyrir kosningar,” sagði Geir.

Geir segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hjá þeirri ríkisstjórn sem nú fer frá völdum að gera breytingar á bankastjórn Seðlabankans. Aðspurður segist hann ekki vita til annars en að Davíð Oddsson sé enn við störf í Seðlabankanum sem bankastjóri.

Geir segist telja að Ingibjörg Sólrún muni taka á því með ábyrgum hætti þá hugmynd Sjálfstæðisflokksins að Sjálfstæðisflokkurinn muni leiða þjóðstjórn.

       
mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Föstudaginn 29. nóvember

Fimmtudaginn 28. nóvember

Mánudaginn 18. nóvember

Laugardaginn 16. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember

Þriðjudaginn 12. nóvember

Mánudaginn 11. nóvember

Sunnudaginn 10. nóvember

Laugardaginn 9. nóvember

Föstudaginn 8. nóvember

Laugardaginn 2. nóvember

Fimmtudaginn 31. október

Miðvikudaginn 30. október

Mánudaginn 28. október