Ólafur Ragnar: Vildi upplýsa þjóðina

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum. Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á fundi með fréttamönnum á Bessastöðum í dag að þegar hann hafi í gær lýst þeim fjórum verkefnum sem hann taldi brýnast að höfð væru í huga þegar ákvarðanir væru teknar á næstu dögum, sé ekkert nýmæli. Það sem hafi breyst sé að hann telji eðlilegt að þjóðin sé upplýst um áhersluatriði forsetans. Hingað til hafi slíkt verið rætt fyrir luktum dyrum.

Ólafur Ragnar nefndi eins og áður sagði fjögur atriði sem mikilvægt væri að hafa í huga og eiga að setja svip á það sem gert verður. Í fyrsta lagi það brýna verkefni að skapa á ný samfélagslega sátt í íslensku  þjóðfélagi þannig að þeir atburður og átök sem við höfum öll orðið vitni af að undanförnu lagist og íslenskt samfélag geti orðið að nýju það samfélag sem við kjósum og erum vön. Að þjóðin geti gengið til daglegra starfa á friðsaman og öruggan hátt. Segir Ólafur Ragnar það nauðsynlegt að skapa hér nauðsynlegan frið en hann telur það mikilvægast í því starfi sem fram undan er.

Í öðru lagi nefndi Ólafur Ragnar að haldið sé þannig á málum það þær ákvarðanir sem teknar eru séu teknar hafi hag þjóðarinnar, heimilanna í landinu fyrirtækja og atvinnulífs að leiðarljósi og þannig lagður grundvöllur að farsælli lausn eins fljótt og auðið er. 

Í þriðja lagi að þjóðin fái sem fyrst tækifæri til þess að endurnýja umboð nýs Alþingis og kjósa sér þá fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem íslensk stjórnskipun kveður á um. 

Í fjórða lagi telur Ólafur Ragnar nauðsynlegt að skapaður sé farvegur fyrir þá umræðu sem við verðum mjög vör við í okkar þjóðfélagi þar sem fólk varpar fram hugmyndum og kröfum um nýja stjórnskipan, endurskoðun á stjórnarskrá, nýtt lýðveldi eins og sumir orða það.

Fullkomlega lýðræðislegt að upplýsa um áherslur

Ólafur Ragnar segir að sjálfskipaðir álitsgjafar og fræðimenn sem tjáð hafi sig um orð hans síðan í gær hafi ekki réttan skilning málinu.

„Munurinn á því sem ég gerði kannski nú og fyrri forsetar hafa gert er að fyrri forsetar hafa lýst sjónarmiðum af þessu tagi í einkasamræðum sínum við formenn flokkanna. Fyrir luktum dyrum, bak við tjöldin. Þeir hafa síðan lýst sjónarmiðum sínum og áherslum í slíkum samræðum. Ég taldi hins vegar alveg rétt og eðlilegt að þjóðin fengi að heyra hverjar væru þær áherslur og leiðarljós sem ég teldi nauðsynlegt að hafa í hávegum og taka fyrst og fremst mið af.

Ég tel líka að á þeim tímum og að krafan í samfélaginu sé með þeim hætti að þau sjónarmið sem forsetinn setur fram við forystumenn flokkanna þau séu þjóðinni ljós þótt það hafi tíðkast hér áður fyrr að það væri bara bak við luktar dyr," sagði Ólafur Ragnar og bætti við að segja megi að það sé nýjung, og hann vonist til þess að fréttamenn geri ekki athugasemdir við það að forsetinn ræði líka við fjölmiðlamenn og gefi þeim kost á spurningum og samræðum af þessu tagi.

„Það er kannski líka að fara út fyrir vald- og verksvið forsetans að kenningu þessara ágætu manna en ég tel bara að það sé eðlilegt og fullkomlega lýðræðislegt að forsetinn sé ekkert að leyna því hvaða áherslur hann setur fram í slíkum viðræðum."

Ummæli um þingrofsréttinn misskilinn

Ólafur Ragnar Grímsson segist telja að það gæti einnig misskilnings með orð hans frá því í gær um þingrofsréttinn.

„Forsætisráðherra, sem hefur á bak við sig ótvírætt stuðning meirihluta Alþingis, getur eðlilega sett fram ósk um þingrof og ég tel þá rétt og samkvæmt stjórnskipuninni að forseti verði við þeirri ósk. Ef forsætisráðherra, sem hefur ekki á bak við sig skýran meirihluta Alþingis, setur fram slíka ósk er nauðsynlegt að forseti kanni það hver er vilji og hvert er viðhorf meirihluta Alþingis við þær kringumstæður.

Því er hvorki í anda þingræðisins eða lýðræðisins að einn maður sem er fulltrúi minnihluta Alþingis, það er eins þingflokks, hafi í hendi sér þingrofsvaldið eitt og sér."

Ólafur Ragnar segir að það sé ljóst að ef það er ekki alveg skýr þingmeirihluti á bak við óskina um þingrof þá hljóti forsetinn að meta það með sjálfstæðum hætti hvort rétt sé að verða við þeirri ósk forsætisráðherra eða ekki. Það getur verið að forsetinn telji það skynsamlegt að verða við henni eins og Kristján Eldjárn gerði á sínum tíma en var þó gagnrýndur fyrir það en það er háð sjálfstæðu mati forsetans og það telji hann vera alveg skýrt í anda þeirrar þingræðisreglu sem hér ríkir.

„Aftur á móti ef það er skýr þingmeirihluti á bak við óskina þá tel ég að forsetanum beri að verða við því. Ég hlustaði líka á ýmis sjónarmið eins og sérfræðinga. Ég var nú prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um langt árabil og tel mig þekkja þessi fræði alveg jafn vel eins og ýmsir aðrir en rifja kannski upp líka að þegar deilurnar stóðu um málskotsréttinn á sínum tíma, fyrir fjórum árum eða svo.

Þá komu líka fram alls konar sjálfskipaðir álitsgjafar og sérfræðingar sem voru uppi með fullyrðingar um að forsetinn hefði ekki þetta vald. Meira að segja fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og hæstaréttardómari setti fram það sjónarmið að forsetinn hefði alls ekki þetta vald. Nema ráðherrann veitti honum þetta vald. En eins og við vitum öll þá leiddi atburðarrásin það í ljós að það var alls ekki. Forsetinn hafði þetta vald alveg ótvírætt og ég tel að skilningur minn á þingrofsréttinum sé alveg jafn skýr og skilningur minn á málskotsréttinum á sínum tíma," sagði Ólafur Ragnar við fréttamenn á Bessastöðum í dag.

Ólafur Ragnar segir að endanleg ákvörðun um þingrof liggi hjá forseta landsins en auðvitað geti forsætisráðherra gert tillögu um þingrof ef hann kýs að gera það. En þá ber forseta að kanna hvort það sé einkaósk starfandi forsætisráðherra eða hans flokks og kanna hver sé vilji meirihluta þings á bak við það. „Það væri ekki  að mínu mati í samræmi við þingræðisregluna eða lýðræðisskipan okkar lýðveldis að forsætisráðherra sem beðist hefur lausnar geti í krafti minnihluta á Alþingi krafist þess að þing verði rofið og það sé ótvírætt að svo verði að vera við þeirri ósk. Það verður að vera sjálfstætt mat forsetans. Þó er hugsanlegt að ástandið í þjóðfélaginu sé þannig að að dómi forsetans að hann telji það verði að vera við þeirri ósk."

Rangt að þingrofsrétturinn sé í hendi forsætisráðherra

Ólafur Ragnar segist ekki vera að leggja neinar línur varðandi þingrofsréttinn heldur sé um að ræða eðli þingrofsréttar eins og hann hefur verið í áratugi og allan lýðveldistímann.

„Það sem hefur kannski ruglað menn í ríminu á undanförnum árum er að forystumenn í stjórnmálum hafa verið að halda fram þeirri kenningu að forsætisráðherrann, sá stjórnmálamaður sem gegnir því embætti, hann hefði þingrofsréttinn einn og sér í sinni hendi. Það er bara rangt og hefur alltaf verið rangt. Alveg eins og það var rangt í samskiptum Ólafs Thors og Sveins Björnssonar og hefur verið rangt alla tíð síðan. Ég hef tekið eftir því að einstakir stjórnmálamenn hafa talið það þjóna sínum hagsmunum að vera vera með einskonar svipu yfir öðrum stjórnmálamönnum með því að segja að þeir hefðu þennan rétt einir og sér í sinni hendi."

.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Mánudaginn 18. nóvember

Laugardaginn 16. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember

Þriðjudaginn 12. nóvember

Mánudaginn 11. nóvember

Sunnudaginn 10. nóvember

Laugardaginn 9. nóvember

Föstudaginn 8. nóvember

Laugardaginn 2. nóvember

Fimmtudaginn 31. október

Miðvikudaginn 30. október

Mánudaginn 28. október