Óska eftir upplýsingum stjórnmálaflokka vegna bílalána

mbl.is

Fé­lag ís­lenskra bif­reiðaeig­enda, FÍB, hef­ur ritað for­svars­mönn­um allra stjórn­mála­flokka og –hreyf­inga sem nú bjóða fram til alþing­is­kosn­inga bréf. Í því er m.a. spurt um hvort mótaðar hafi verið hug­mynd­ir um viðbrögð við greiðslu­erfiðleik­um fólks vegna bíla­lána í er­lendri mynt, til hvaða aðgerða sé fyr­ir­hugað að grípa til og hvenær, til að leysa vanda þeirra sem eiga í erfiðleik­um með það að standa í skil­um  með af­borg­an­ir af þess­um lán­um.

 Að und­an­förnu hef­ur fjöldi fólks sem komið er í greiðslu­vanda með bíla­lán sín, leitað til FÍB. Fjöl­marg­ar fjöl­skyld­ur end­ur­nýjuðu bíla sína á und­an­gengn­um þenslu­ár­un­um, og oft­ar en ekki með með láns­fé sem þá var auðfengið hjá bönk­um og fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tækj­um. Er­lend mynt­körfulán voru al­geng­ust og gjarn­an tryggð með sér­stöku veði í heim­il­um lán­tak­enda og ábyrgðarmanna, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá FÍB.

„Í kjöl­far geng­is­hruns ís­lensku krón­unn­ar hef­ur höfuðstóll þess­ara lána hækkað gríðarlega með sam­svar­andi áhrif­um á af­borg­an­ir. Bank­arn­ir og fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tæk­in hafa flest boðið upp á tíma­bundna greiðslu­fryst­ingu fyr­ir þá sem eru með lán sín í skil­um. Það kann að reyn­ast skamm­góður verm­ir. Aðrir sem ekki njóta slíkr­ar fryst­ing­ar þurfa hins veg­ar að róa þung­an róður. Í mörg­um til­fell­um eru bif­reiðalán að leggja fjár­hag fjöl­skyldna að velli. Á sama tíma er nán­ast ein­vörðungu rætt um lausn­ir á vanda tengd­um hús­næðislán­unm. Rétt er að halda því til haga að því fer fjarri að FÍB sé að draga úr þeim vanda. Hins veg­ar tel­ur fé­lagið brýnt að lausn­ir verði einnig fundn­ar á vanda þeirra sem í góðri trú tóku lán í er­lendri mynt til kaupa á fjöl­skyldu­bif­reið. Þess­ir ein­stak­ling­ar eru nú í bráðri hættu á að missa heim­ili sín vegna hækk­andi bíla­lána.

Flest ef ekki öll stjórn­mála­sam­tök sem bjóða nú fram til alþing­is­kosn­inga hafa lýst ein­dregn­um vilja til að verja heim­il­in og fjöl­skyld­urn­ar í land­inu skip­broti í þeim efna­hags­lega ólgu­sjó sem nú geng­ur yfir. Óhjá­kvæmi­legt er að það efna­hags­ástand sem nú rík­ir á Íslandi komi við efna­hag heim­ila og fjöl­skyldna í land­inu. Fé­lag ís­lenskra bif­reiðaeig­enda minn­ir á að hags­mun­ir heim­ila og fjöl­skyldna lúta ekki ein­ung­is að íbúðar­hús­næði held­ur líka að því að eiga og reka fjöl­skyldu­bif­reið.

Nú er stutt til kosn­inga og með hliðsjón af því fer fé­lagið þess á leit við for­ystu­menn flokk­anna og –sam­tak­anna að svara spurn­ing­um fé­lags­ins eins fljótt og kost­ur er og ekki síðar en á há­degi þann 23. apríl nk. Þann dag hyggst fé­lagið kynna fé­lags­mönn­um sín­um svör­in.

Spurn­ing­arn­ar sem FÍB legg­ur fyr­ir for­ystu­menn­ina, flokka þeirra og sam­tök eru svohljóðandi:

Hvað ætlið þér og stjórn­mála­flokkk­ur, -hreyf­ing þín að gera varðandi vanda þess­ara neyt­enda? Jafn­framt; hvenær yrði gripið til þeirra aðgerða?

Hef­ur stjórn­mála­flokk­ur­inn, -hreyf­ing­in beitt sér í þess­um mál­um á síðustu mánuðum?

Hef­ur flokk­ur­inn, -hreyf­ing­in mótaðar hug­mynd­ir um að tryggja hags­muni neyt­enda sem eiga í greiðslu­erfiðleik­um vegna bíla­fjár­mögn­un­ar?

Tel­ur stjórn­mála­flokk­ur­inn, -hreyf­ing­in að til greina komi að neyt­end­um með mynt­körfulán verði boðið upp á greiðslu­jöfn­un­ar­leið, líkt og sést hef­ur með hús­næðislán í er­lendri mynt," að því er seg­ir í bréfi FÍB.

mbl.is