"Ekki alltaf sama tungutak í einstökum málum"

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingar, segir fráleitt að skerða kennsluframlög til einkarekinna skóla á háskólastigi sem innheimti skólagjöld, í ljósi þeirra aðstæðna sem ríki í málefnum skólanna í dag. Um þetta atriði sé ekki deilt innan Samfylkingar.

Ingibjörg Sólrún sagði á framboðsfundi í Háskólanum í Reykjavík í síðustu viku að hún teldi ekki rétt að einkaskólar á háskólastigi fengju sama opinbera framlag og ríkisskólar sem hefðu ekki heimild til að innheimta skólagjöld. Á framboðsfundi á Bifröst í gær var lesið upp úr svarbréfi Guðmundar Árna Stefánssonar, þingmanns Samfylkingar, til nemanda á Bifröst sem var óhress með ummæli Ingibjargar. Í tölvuskeyti Guðmundar Árna segir að þingflokkur Samfylkingar hafi markað sér skýra stefnu í málinu á Alþingi sl. vetur. Sér sýnist að Ingibjörg Sólrún hafi farið "dálítið út í vegkantinn í ummælum sínum" í Háskóla Reykjavíkur og ekki "tóna[ð] afstöðu flokksins til þessara mála".

"Þar segjum við einfaldlega að við viljum virka samkeppni á háskólastigi og ef ójafnvægi reynist í fjárframlögum til háskóla sem skekki þá mynd, þá beri ríkisvaldinu að jafna hana með því að hækka upp á við, þ.e.a.s. bæta þeim sem lakar kunna að standa, en alls ekki lækka hjá þeim skólum sem rýmri fjárráð hafa, t.d. vegna skólagjalda," segir Guðmundur Árni. Ingibjörg Sólrún segist algerlega sammála honum í þessu. Á fundinum í Háskólanum í Reykjavík hafi hún verið að tala hvernig hún sæi þróunina fyrir sér í framtíðinni.

"Við erum annars vegar að tala um stöðuna eins og hún er núna og hins vegar þegar til framtíðar er litið. Staða háskólanna núna er mjög misjöfn, einkaskólar hafa rétt til skólagjalda sem Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskólinn og aðrir ríkisskólar hafa ekki. Háskóli Íslands hefur aftur á móti aðgang að happdrættisfé sem hinir hafa ekki til fjárfestinga. Hann hefur mun meira fjármagn en hinir til rannsókna. Við þessar aðstæður er fráleitt að skerða kennsluframlög vegna skólagjalda, vegna þess að menn sitja ekki við sama borð.

Ingibjörg Sólrún segir mikilvægt að móta stefnu til framtíðar um hvernig jafnræði verði tryggt milli rekstrarforma skólanna þannig að ekki sé dreginn taumur eins á kostnað annars.

"Ef skólarnir sem eru reknir sem sjálfseignarstofnanir ættu að njóta bæði húsnæðisframlaga eins og Háskóli Íslands, rannsóknarframlaga og kennsluframlaga, þá væri í raun búið að skerða samkeppnisstöðu Háskóla Íslands og ríkisháskóla því þeir hafa ekki heimild til skólagjalda. þannig að þarna á milli verður að finna eitthvert jafnræði þegar til framtíðar er litið. En eins og staðan er núna þá er mjög misjafnt hvernig að þeim er búið," segir Ingibjörg Sólrún.

"Við höfum ekki alltaf sama tungutak í einstökum málum en efnislega erum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir algerlega sammála um þetta og Samfylkingin einhuga. Við viljum samkeppni milli háskólanna og við viljum tryggja að hún sé á jafnræðisgrundvelli og við höfum sagt að ef það kemur í ljós að athuguðu máli og öllum upplýsingum fyrir liggjandi að það þurfi að jafna hana með einhverjum hætti þá viljum við gera að með því að jafna hana upp á við. Ég hygg að það sé góður einhugur um þetta þó að menn nálgist þetta viðfangsefni með mismunandi hætti," segir Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingar, um ólíkar áherslur í umræddu tölvuskeyti hans og ummæli Ingibjargar Sólrúnar í HR.

"Það var kannski sá misskilningur sem ég var að reyna eyða þarna upp frá [á Bifröst], því að nemendurnir eins og ég og fleiri lásum það í blöðunum að það hefði mátt skilja orð hennar með öðrum hætti."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka