Banaslys í Vestmannaeyjum í nótt

17 ára stúlka lést eftir bílslys í Vestmannaeyjum í nótt. Klukkan 01:18 var lögreglunni í Vestmanneyjum tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Strandvegi við Steypustöð Vestmannaeyja þar sem bifreið hafði hafnað utan vegar og lent á steinvegg. Í bifreiðinni voru tveir farþegar, auk ökumanns, allt 17 ára gamlar stúlkur. Kalla þurfti til aðstoðar tækjabifreiðar Slökkviliðs Vestmannaeyja til að losa ökumanninn út úr bifreiðinni.

Ökumaður og farþegar voru fluttir á sjúkrahús Vestmannaeyja. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að flytja hina slösuðu til Reykjavíkur. 17 ára stúlka, sem var í bifreiðinni, var úrskurðuð látin nokkru eftir að hún var flutt á sjúkrahús Vestmannaeyja. Hinar stúlkurnar tvær voru fluttar með þyrlu Gæslunnar til Reykjavíkur alvarlega slasaðar. Aðdragandi slyssins er í rannsókn og óskar lögregla eftir að vitni af slysinu gefi sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka