Karlmaður um þrítugt réðst á unga konu sem var á morgunskokki í Laugardalnum á níunda tímanum í morgun. Maðurinn, sem var vopnaður eggjárni eða hnífi, reyndi að þröngva konunni inn í runna en hún snerist til varnar og réð niðurlögum hans og hljóp hann þá á brott. Lögregla leitar mannsins. Hann var dökkklæddur og með svarta húfu og er sennilega um þrítugt, skv. lýsingu hennar.
„Ég var á morgunskokki og var búin að hlaupa í um 40 mínútur þegar ég tók eftir manni á Sundlaugarveginum,“ sagði konan í samtali við Morgunblaðið í dag en hún vildi ekki láta nafns síns getið. „Ég tók svo eftir að þessi sami maður sneri við og hélt í humátt á eftir mér. Þegar ég var komin inn í dalinn heyrði ég þunglamalegt hlaup fyrir aftan mig. Það var greinilegt að þar var ekki hlaupari á ferð og hafði ég allan varann á. Ég var sem betur fer í viðbragðsstöðu,“ segir hún.
Maðurinn réðst á konuna skammt frá Þróttaraheimilinu í Laugardal. Hún segist hafa gert þau mistök að hlaupa nálægt runna við göngustíginn. „Þegar hann var kominn að mér greip hann um hálsinn á mér aftanfrá og ætlaði sér að ýta mér inn í runnann. Ég brást þannig við að ég sneri mér við og reyndi að fleygja honum. Þá brá honum. Ég sá að það glitti á eggjárn í hendi hans. Ég man ekki hvað gerðist fyrr en hann var kominn um tíu metra frá mér og þá kallaði ég á eftir honum að ég hafi séð til hans.“
Konan er líkamsræktarþjálfari og vel á sig komin og gat snúið manninn niður.
„Hann hefur ábyggilega séð að ég var orðin þreytt því ég hafði hlaupið í um 40 mínútur og hann hefur talið að það yrði ekki mikið mál að ná mér. Hann var ekki vel á sig kominn. Ég hafði nóg til að taka á móti. Það var alveg ljóst hvað hann ætlaði sér og hefði getað gerst þarna en ég var mjög ákveðin og það bjargaði mér,“ segir hún.
Skokkar oft um Laugardalinn
Konan var að vonum eftir sig eftir þessa óhugnanlegu lífsreynslu þegar Morgunblaðið ræddi við hana í gærmorgun. Hún segist skokka á þessum slóðum þrisvar í viku og aldrei hafa látið sér til hugar koma að hún yrði fyrir árás. „Borgin er bara að breytast og versna,“ segir hún.
Kærði hún árásina til lögreglu og gat gefið nokkra lýsingu á manninum.