Danskur hermaður efast um gagnsemi danskra hersveita í Írak

Óþekktur hermaður í varðstöð í Írak. Mestur tími danskra hermanna, …
Óþekktur hermaður í varðstöð í Írak. Mestur tími danskra hermanna, segir Caleb Noltensmejer liðþjálfi í danska hernum, fer í að gæta sinna eigin herbúða. AP

Liðþjálfi í danska herliðinu í Írak gagnrýndi í dag yfirmenn sína og sakar þá um að halda öflugum liðsafla fimm hundruð danskra hermanna inni í herbúðum í landinu frekar en að senda þá í leiðangra sem gætu reynst hættulegir lífi og limum hermannanna. „Við notum skattféð til þess að slappa af í Eden-herbúðunum,“ segir Caleb Noltensmejer liðþjálfi í nýjasta tölublaði CS Bladet, fréttabréfs hermanna (Centralforeningen for Stampersonel), sem vinnur að varnarmálum í Danmörku. Noltensmejer, sem hefur verið þrjá áratugi í danska hernum, tilheyrir herflokki sem hefur aðsetur í Eden-herbúðum svokölluðum nærri Tígrisfljóti norður af borginni Basra, sem er undir breskri herstjórn.

Noltensmejer segir að ástæðan sé að danskir herforingjar hafi áttað sig á að flestir dönsku hermannanna séu ekki nægilega þjálfaðir til þess að takast á við þau verkefni sem þeir ættu að inna af hendi í hinu stríðshrjáða landi. Noltensmejer segir að sú staðreynd að einn danskur hermaður hafi fallið í Írak, og það fyrir hendi samlanda síns, segi allt um aðgerðaleysi þeirra því að þeir fari sjaldnast út fyrir herbúðirnar.

Að sögn Niels-Jörgen Quist, ofursta í danska hernum, hafnar danski herinn þessum ásökunum með öllu, sem staðleysu. „Dönsku hermennirnir, sem sendir voru til Íraks 12. október sl. hafa ferðast um 160.000 kílómetra, gert 314 vopn upptæk og handtekið sextíu og fimm manns,“ segir ofurstinn.

Gerhardt Bredö Simonsen, varaforseti CS, fullyrðir hins vegar að þó að danskar hersveitir hafi lagt þetta marga kílómetra að baki skipti meira máli hvað hersveitirnar hafi verið að gera á því ferðalagi öllu. „Ef hermenn halda sig fjarri hættusvæðum ná þeir engum hernaðarlegum árangri,“ sagði Bredö Simonsen í viðtali við danska dagblaðið Jyllands-Posten í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka