Tilboð voru í dag opnuð hjá Vegagerðinni vegna flutnings Hringbrautar í Reykjavík. Lægsta tilboð áttu í sameiningu Háfell og Reykir í Reykjavík. Tilboð þeirra nemur 90,5% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem er 1,3 milljarðar króna. Ístak átti hæsta tilboðið, sem er tæpum tíu prósentum yfir áætluðum kostnaði.
Samkvæmt tilboðinu á að færa Hringbraut frá Rauðarárstíg að Tjörninni og aðlaga aðliggjandi götum ásamt því að breyta gömlu Hringbraut og tengingum við hana.
Hin nýja Hringbraut mun verða sunnan við núverandi Hringbraut neðan við lóð Landspítalans og BSÍ. Hin nýja Hringbraut verður lögð undir núverandi Bústaðarvegarbrú að austanverðu og tengd nýjum gatnamótum Njarðargötu vestanmegin. Verkinu á að vera lokið að fullu fyrir 15. október 2005. Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.