Brasilíumenn segjast ætla að framleiða ofurkaffi

Vísindamenn í Brasilíu hafa búið til líkan af erfðamengi þekktustu framleiðsluvöru landsins, kaffis. Roberto Rodrigues, landbúnaðarráðherra Brasilíu, skýrði frá þessu í gær og sagði að þetta myndi leiða til þess að kaffi yrði enn betra. Sagði Rodrigues hægt yrði að nota þetta líkan til að framleiða einskonar „ofurkaffi", bragðmeira með betri lykt.

Fram kemur á fréttavef BBC að vísindamenn hafi einangrað um 35 þúsund kaffigen en samband þeirra gefur kaffi ilm og bragð. Rodrigues sagði að hægt yrði að bæta kaffið með víxlfrjóvgun en ekki yrði um að ræða erfðabreytingar í rannsóknarstofum.

Brasilía flytur út um þriðjung alls þess kaffis sem drukkið er í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka