Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segir engan bilbug á sér að finna þrátt fyrir viðbrögð borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sem telja hana hafa í raun sagt af sér embætti borgarstjóra með því að ákveða að taka sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar.
„Ég hef ekki horfið úr stóli borgarstjóra og er ekki heldur hætt við þingframboð," sagði Ingibjörg Sólrún við blaðamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Aðspurð um hvort hún ætti von á að lögð yrði fram vantrauststillaga á hana í borgarstjórn sagði Ingibjörg: „Það getur vel verið að hún komi fram. Þá verðum við bara að sjá hvað verður.“ Það sagðist hún hafa tekið sæti sem borgarstjóraefni Reykjavíkurlistans og ekki á kvóta neins flokks. „Ástæðan fyrir því var sú að ég vildi ekki vera undir flokksaga hjá neinum flokki í mínu starfi og ég er ekki undir flokksaga eins eða neins flokks þegar ég starfa hér sem borgarstjóri allra Reykvíkinga.“
„Kom dálítið á óvart“
Hún sagði að í sjálfu sér hefðu hörð viðbrögð Framsóknarmanna og Vinstri-grænna ekki komið sé á óvart. „Að vísu kom það mér dálítið á óvart vegna þess að þetta er fimmta sætið. Það er ekki eins og að þetta sé leiðtogasæti eða í því að þessu felist einhver réttur um eitt eða neitt. Ég er að setja málefni borgarinnar á dagskrá,“ sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við: „Við vitum það alveg að fólk í sveitarstjórnum er ekki endilega sammála sínu fólki í landsstjórninni.“
„Ég tel eðlilegt að við förum yfir þessa samstarfsyfirlýsingu sem við gerðum á sínum tíma og ræðum hana. Ég bauð mig fram til þess að vera borgarstjóri Reykvíkinga, gæta hagsmuna borgarinnar í hvívetna og reyndar vera borgarstjóri allra Reykvíkinga, ekki bara þeirra sem kusu Reykjavíkurlistann, og það er engan bilbug á mér að finna. Ég tel mig geta gegnt því áfram,“ sagði Ingibjörg Sólrún. Hún sagði samstarfinu ekki lokið. „Nú setjumst við niður og ræðum málið og menn anda með nefinu í nokkra daga," sagði Ingibjörg Sólrún.
Ekki úrslitakostir
Ingibjörg sagðist ekki líta á yfirlýsingu Framsóknarmanna og Vinstri grænna sem úrslitakosti. „Þetta er yfirlýsing um að þeir vilja ræða þessi mál. Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt. Þá sagði Ingibjörg að hún ætlaði ekki að velja milli þess að vera borgarstjóri og að fara í framboð til þings. „Ég er kosin sem borgarstjóri og ég er það á meðan ég nýt til þess trausts. Borgarstjórn Reykjavíkur kaus mig og á því hefur ekki orðið nein breyting,“ sagði Ingibjörg.