Hið konunglega fjelag, sem er félagsskapur íslenskra royalista eða konungssinna, sendi áskorun til Ríkisútvarpsins í dag þess efnis að sýnt yrði „beint frá brúðkaupi ríkisarfans í Danaveldi þann 14. maí næstkomandi“. Útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, brást snarlega við og svaraði royalistum um hæl og staðfesti að ríkissjónvarpið muni sýna beint frá þessum merkisatburði.
Í áskorun Hins konunglega fjelags (HKF) segir m.a.: „Íslandsvinurinn Friðrik krónprins er frumburður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem fæddist árið 1940 sem frumburður Friðriks, síðasta krónprins Íslands, enda var henni gefið íslenzkt nafn sem sæmdi íslenzkri krónprinsessu. Fjöldi konunghollra Íslendinga telur það vera sjálfsagt hlutverk hins íslenzka Ríkisútvarps að tryggja að þeir geti fylgzt með þessum merku tímamótum í sögu konungsfjölskyldunnar okkar.“
Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur er einn talsmanna HKF og sagði hún í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að félagsmenn væru ákaflega þakklátir fyrir skjót viðbrögð. HKF er að sögn Eyrúnar tiltölulega ungt félag og ekki fjölmennt sem stendur en vart verði við mjög mikinn áhuga á félaginu og stefnt sé að fjöldahreyfingu.
Félagsmenn hittast á dönskum frokost og ræða saman og um þessar mundir fer mestur tími í skipulagningu fyrir stóratburðinn 14. maí nk. þegar Friðrik Danaprins og María heitkona hans hin ástralska verða gefin saman í kóngsins Kaupinhafn. Stefnt er að því að royalistar í Reykjavík og jafnvel víðar að geti hist, haldið upp á brúðkaupið, skálað fyrir brúðhjónunum og horft saman á brúðkaupið í beinni. Ráðgert er að senda skeyti til brúðhjónanna.
Þegar Eyrún er spurð hvort félagsmenn í Hinu konunglega fjelagi vilji að Íslendingar sameinist Danaveldi á ný eftir sextíu ára lýðveldistíma, segir hún að það hafi verið viðrað innan félagsins hvort rétt væri að fá Danadrottningu og fjölskyldu í einhvers konar verktöku til þess að sjá um þau mál fyrir Íslands hönd.
Þá sagði Eyrún að royalistar á Íslandi mæltust til þess við atvinnurekendur að þeir gefi starfsfólki sínu frí um og eftir hádegi föstudaginn 14. maí nk. til þess að fólk geti fylgst með brúðkaupinu í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins.