Byggingaverkamaður komst lífs af eftir að hafa fengið sex nagla úr naglabyssu í höfuðið. Læknum í Los Angeles tókst að ná nöglunum úr höfði mannsins og er talið að hann nái sér að fullu.
Isidro Mejia, sem er 39 ára, var að vinna við byggingu með sjálfvirka naglabyssu. Svo virðist sem hann hafi hrasað og rekið byssuna í og við höggið fór hún að skjóta nöglum. Sex naglar lentu í höfði Mejias, þar af fóru fjórir gegnum höfuðkúpuna og einn í efstu hryggjarliðina.
Læknar á Providence Holy Cross sjúkrahúsinu í Los Angeles töldu Mejia vera í lífshættu þegar hann kom á sjúkrahúsið en á næstu fimm dögum tókst þeim að ná nöglunum.
„Taugaskurðlæknirinn, sem gerði aðgerð á Mejia, sagðist varla trúa því að sjúklingurinn væri enn á lífi," sagði Brian Green, talsmaður sjúkrahússins. „Með slíka áverka hefði hann átt að vera farinn í annan heim. Hann er nú kominn af gjörgæsludeild og þótt hann sé enn í lyfjameðferð er búist við að hann nái sér að fullu."