Stúlknabandið Nylon, sem sett var saman af umboðsmanni Íslands, Einari Bárðarsyni, í upphafi árs, hefur innreið sína í sjónvarpið í kvöld. Þá verður sýndur fyrsti þátturinn af Nylon og munu stúlkurnar þar með feta í fótspor hinnar andans skyldu sveitar og þeirra fyrstu sem var "tilbúin", The Monkees, en hún var með eigin þætti í bandarísku sjónvarpi á sjöunda áratugnum.
Í þættinum verður fylgst með Nylon; þeim Emilíu, Ölmu, Klöru og Steinunni, á æfingum, á tónleikum, við upptökur og spjallað við þær saman og í sitt hvoru lagi. Einnig er talað við umboðsmanninn þeirra, Einar Bárðarson, og aðra málsmetandi menn í íslenska poppbransanum. Þættirnir verða vikulega á dagskrá Skjás eins út sumarið.
Að sögn Klöru Ósk Elíasdóttur Nylonstúlku verður þátturinn byggður upp í kringum daglegt stúss hennar og vinkvenna hennar sem meðlima í Nylon, en ekki verði fylgst með þeim 24 tíma á sólarhing eins og sums staðar hefur verið sagt.
"Þetta er skemmtilegur vinkill á þessu starfi okkar," segir hún. "Það er skrýtið að hafa myndavél stöðugt á bakinu, þar sem maður er með hárið í teygju og í joggingbuxum að æfa einhver dansspor en það venst."
Klara segir tímann í Nylon vera einkar lærdómsríkan, þetta sé mjög gaman en þetta sé um leið "harðkjarna" reynsla.
"Við erum auðvitað að gera það sem okkur finnst skemmtilegast; þ.e. að syngja og koma fram," segir hún.
Klara lætur vel af samstarfinu og segir að þær stöllur nái mjög vel saman.
"Í raun var auðvitað nóg að við næðum vel saman í samstarfinu, vináttan var engin krafa. Þannig að þetta er ánægjuleg aukaafurð að við náum svona vel saman. Ágreiningsmál koma auðvitað líka upp en væri líka eitthvað skrýtið ef það væri ekki, enda er samstarfið mjög náið."
Klara segir að lokum að stefnt sé á breiðskífu í haust og nú sé hellingur af efni í vinnslu.
Spurð um hvort þetta sé spurning um heimsyfirráð eða dauða segir hún kankvís: "Bara bæði. Byrjum á heimsyfirráðunum og eftir það deyjum við."
Dagskrárgerðin í Nylon er í höndum Ástu Briem og Benedikts Nikulásar Anesar Ketilssonar. Þess má og geta að Nylon verður á fleygiferð um landið í sumar og nýjasta lag þeirra, ábreiða yfir Mannakorns-slagarann "Einhvers staðar, einhvern tímann aftur", er í spilun á útvarpsstöðvum um þessar mundir.
Nylon er á dagskrá Skjás eins klukkan 21.00 í kvöld. |