Eiríkur Hauksson þungarokkarinn fyrrverandi treður upp á aðaltorgi heimabæjar síns í Gressvik í Noregi á morgun, laugardag. Það væri sosum ekki í frásögur færandi nema þar stígur hann á stokk með fyrirmynd sinni; Ken Hensley söngvara bresku þungarokksveitarinnar Uriah Heep.
Fram kemur á heimasíðu Hensley að Eiríkur komi fram með honum í Gressvik sem „sérstakur gestur“. Hefur Eiríkur sungið með mörgum kunnum popparanum en í huga hans er upprtroðslan að þessu sinni nokkuð sérstök.
„Ég keypti fyrstu hljómplötuna þegar ég var 12 ára gutti og hún var með Uriah Heep. Ken Hensley samdi öll helstu stórlög þeirra,“ segir Eiríkur í samtali sem birtist í dag á fréttavef norska blaðsins Fredriksstad Blad.
Uriah Heep var upp á sitt besta á áttunda áratugnum. Eiríkur er sammála því að hún hafi fallið í skuggan af Deep Purple, en báðar léku þungarokk þar sem Hammond-orgel gegndu mikilvægu hlutverki við að skapa heildarhljóm laganna. Margir haldi því fram, segir blaðið, að í Deep Purple hafi verið betri músíkantar.
Um það atriði er haft eftir Eiríki: „Heep var að mínu mati stórlega vanmetin sveit. Hún sameinaði trukk og ljóðrænu í tónlist sinni.“
Meðal laga sem þeir Hensley munu flytja eru tvö af vinsælustu lögum Uriah Heep, standardarnir „Lady in Black“ og „Easy Livin“.
Fyrsta helgin í júlí verður annasöm hjá Eiríki Haukssyni. Annan föstudag hitar hann upp fyrir breska blús- og rokkgítarleikarann Gary Moore á íþróttaleikvanginum í Fredriksstað og laugardag og sunnudag syngur hann á sumarhátíð í Sarpsborg. Seinni tónleikana, 4. júlí, ber upp á 45. afmælisdag hans.