Óskað eftir 2 þúsund Íslendingum fyrir þróun á talgreini

Stefnt er að því að setja íslenskan talgreini á markað í haust, en upptökur af framburði fólks, sem notaðar verða við þróun á honum, standa yfir. Sæmundur Þorsteinsson, hjá Símanum, segir í fyrirtækjafréttabréfi Símans, að þörf sé á fólki til að lesa texta sem inniheldur öll hljóð í íslensku. "Það þarf að vera dæmigert safn af þjóðinni, fólk sem er eldra en 14 ára, jafnt kynjahlutfall og fólk úr öllum landshlutum," er haft eftir Sæmundi.

Hann segist sjá gríðarlega framtíð í tungutækni, því ef hægt er að tala við tæki án lyklaborða, er hægt að minnka tækin enn frekar. Hann segir sem dæmi að það auki þægindi og öryggi enn frekar ef hægt sé að tala við tæki í bíl. "Tungutæknin mun í framtíðinni koma alls staðar inn þar sem við erum að nota tæknibúnað," segir Sæmundur.

Í fyrirtækjafréttabréfi Símans segir að þörf sé á liðsinni tvö þúsund Íslendinga við þróun á íslenskum talgreini, en safna þarf upplýsingum fyrir vélræna greiningu á íslensku talmáli. Sú greining er sögð forsenda þess að hægt sé að búa til lausnir til notkunar í síma- og tölvukerfum. Verkefnið nefnist Hjal, en það er samstarfsverkefni Símans, Nýherja, Háskóla Íslands, Grunns gagnalausna og Hex hugbúnaðar. Þá hefur erlent tungutæknifyrirtæki, að nafni Scansoft, tengst verkefninu.

Þeir sem vilja taka þátt í verkefninu geta skráð sig á tungutaekni.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert