"Kunnátta grunnskólanemenda í stærðfræði er nú með þeim hætti að ekki verður við unað," segir í ályktun ársþings SAMFOKS (Samband foreldrafélaga og foreldraráða í grunnskólum Reykjavíkur) sem haldið var á laugardaginn.
"Foreldrar á Ársþingi SAMFOK 2003 krefjast þess að menntamálaráðherra, fræðsluyfirvöld í sveitarfélögum, Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun, kennarar og foreldrar taki höndum saman og vinni að bættri stærðfræðimenntun grunnskólanema. Beitt verði aðgerðum til að styrkja stærðfræðikennara í starfi með auknu námsefni og markvissum aðgerðum í viðbótarnámi í stærðfræði. Mikilvægt er að vinna gegn fordómum og hræðslu gagnvart stærðfræði og tryggja henni þann nauðsynlega sess sem hún þarf að skipa í þekkingarsamfélagi nútímans," segir í ályktuninni.
segir það ágætt að foreldrar setji fram gagnrýni af þessu tagi, það sýni einfaldlega að kerfið virki að því leytinu til. "Viðbrögð frá notendum og njótendum þjónustunnar eiga auðvitað að skila sér beint til skólafólks og þeirra sem fara með stefnumótun. Það er því út af fyrir sig gott að foreldrasamtökin skuli koma með ábendingar af þessu tagi. Auðvitað verður það tekið alvarlega og það er einmitt hlutverk Fræðsluráðs að taka upp ábendingar af þessu tagi og fylgja þeim eftir."
Stefán segir það vera fróðlegt að fá að vita í hverju veikleikarnir eru fólgnir, að mati samtakanna. Það sé spurning hvort verið sé að segja að námsefnið sé lélegt eða kennararnir eða hvort þessi staða sé bundin við eitt sveitarfélag en ekki annað o.s.frv. "En erindinu ber að taka alvarlega og skoða alvarlega."
"En það þarf að skoða þetta í miklu víðara samhengi en bara kennslu og námsefni. Námsgreinin sjálf er nemendum ekki mjög töm. Ef við hugsum um hvað krakkar vinna með stærðfræði utan skólans þá er það alveg hverfandi. Ef við skoðum enskuna, sem þau standa sig best í, þá finna þau heilmikinn hag í því að nota enskuna. Þar eru þau að glíma við tölvur, tölvuleiki og sjónvarpsefni o.s.frv. þannig að það er áreiti í umhverfinu sem gerir það fýsilegt að vera góður í ensku. Íslenskan er þeim líka töm en danskan kemur illa út, hún er ekki spennandi og er þeim ekki töm. Við foreldrarnir erum auðvitað fyrirmyndir og hvenær erum við sem foreldrar að fást við stærðfræði? Við erum hætt að baka og sauma eða smíða, við erum aldrei að vega neitt og notum kort í stað peninga. Þannig að það eru mjög sterkir samfélagslegir þættir sem þarna koma inn í myndina. Aftur á móti tölum við íslensku og notum enskuna þannig að staða og eðli greinarinnar er allt öðruvísi. "
Birna bendir á að foreldrar geti stutt heilmikið við bakið á börnunum, bæði með því að telja með þeim, spila við þau og ræða við þau um stærðfræði. "Ef það gerðist á heimilum væri staða mála betri því talnaskilningur barnanna er lélegur," segir Birna.