Rússar hafa tilkynnt að fulltrúi þeirra í Evróvisjónkeppninni í Riga verði stúlknadúettinn umdeildi, Tatu. Stúlkurnar, sem eru par, hafa skotist upp á stjörnuhimininn með ógnarhraða og eru fyrstu alþjóðlegu poppstjörnur Rússa. Lagið "All The Thing She Says" hefur notið mikilla vinsælda undanfarið og sat m.a. í 4 vikur á toppi breska vinsældalistans.
Julia Volkova og Lena Katina, báðar eru 18 ára gamlar, munu flytja lagið "Ne ver, Ne bojsia", sem gæti útlagst á íslensku "Ekkert að óttast, ekki örvænta". Þær segjast í samtali við breska götublaðið The Sun staðráðnar í að vinna keppnina. "Við vildum gera þetta vegna þess að við erum rússneskar af líkama og sál," sagði Lena. "Við munum valda miklum usla og bjóða upp á djarfara atriði en áður hafa sést í keppninni."
Og þær eru þegar byrjaðar að bauna á keppinautana en Lena sagði þýska keppandann, hina 39 ára gömlu Lou, "skorpna og gamla herfu". "Heima í Rússlandi er hugsað vel um þá blindu og öldruðu, en þeir eru ekki sendir í Evróvisjón eins og Þjóðverjar gera."
Varaðu þig, Birgitta, þessar stelpur eru engin lömb að leika sér við.