Brúðarmær búsett í Manhattan í New York í Bandaríkjunum hefur höfðað mál á hendur fatahönnuðinum Veru Wang og segist hafa slasast alvarlega þegar hún steig á nál í verslun hönnuðarins á Upper East Side. Í kæru Melissu Brennan sem lögð var fyrir dómstól í Manhattan á miðvikudag fer hún fram á tvær milljónir dala, um 150 milljónir króna, í skaðabætur.
Brennan, sem er 27 ára, segir að ekki hafi verið óhætt að ganga um verslun hönnuðarins vegna þess að títuprjónar, nálar og önnur áhöld til sauma hafi legið á gólfinu í búðinni þegar mál voru tekin af henni vegna kjóls í nóvember.
Lögmaður Brennan, Max Leifer, segir að nálin hafi staðið föst í fæti Brennan í viku áður en hún fór í aðgerð þar sem nálin var fjarlægð.
Þekktar konur á borð við Sarah Michelle Gellar, Andie MacDowell og Jessica Simpson hafa nýverið klæðst brúðarkjólum frá Wang en þeir kosta þúsundir dala.