Bruce Dickinson er fjölhæfari en við flest. Hann er flugmaður, sagnfræðingur, skylmingakappi, útvarps- og sjónvarpsmaður, rithöfundur, myndbandaleikstjóri og þriggja barna faðir. Best er hann þó þekktur sem söngvari hinnar goðsagnakenndu þungarokkssveitar Iron Maiden. Orri Páll Ormarsson, gamall maideníti, hitti kappann að máli á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
Það er sumarkvöld í Donington-garði í hjarta Englands. Ég er sautján ára, síðhærður og reiðubúinn að segja heiminum til syndanna. Og hvar er betra að gera það en á tónleikum með Iron Maiden, sjálfri Járnfrúnni, kyndilbera heillar kynslóðar, innan um 107 þúsund hausa, hvern öðrum loðnari? "Rokk en ekki popp!" ómar um garðinn. Við bíðum. Svo kemur að því. Ég finn hvernig kalt vatn rennur milli skinns og hörunds. Forleikurinn að "Moonchild". Þá er fjandinn laus. Hvert lagið rekur annað, "Number of the Beast", "Hallowed Be Thy Name", "2 Minutes to Midnight". Bruce er í essinu sínu. Gellur eins og loftvarnaflauta. Skyrpir stáli. Múgurinn brýst um í útópískri alsælu. Ég tek lagið með næsta manni. Hef aldrei séð hann áður. Mun aldrei sjá hann aftur. En á þessu augnabliki erum við bræður.
Það er auman. Stuggað er við mér. Ég býst til varnar. Þú skalt ekki voga þér að spræna hérna! En bíddu við. Þetta er ekki breskur bárujárnsberserkur með garðslönguna á lofti, heldur íslensk flugfreyja. Hún brosir sínu blíðasta. "Má bjóða þér hressingu?" Hressingu, hvað áttu við? Hvað er eiginlega á seyði? Ég er á flugi. En Bruce er þarna enn þá. Ég sé hann - beint fyrir framan mig. Gegnum þröngar dyr. Hann er klipptur og strokinn og í stað hljóðnema er hann með stýri í höndum. Tól á eyrum. Hann er flugmaður.
Nú næ ég áttum. Fimmtán ár eru liðin. Ég er á leið með flugi Iceland Express frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Tilgangurinn er að eiga viðtal við flugmanninn í áhöfninni og forsöngvara Iron Maiden, téðan Bruce Dickinson.
Eftir þessa óvæntu truflun læt ég hugann reika á ný. Það er langt síðan við Járnfrúin höfum ruglað saman reytum. En þegar á reynir kann ég þetta allt. Hvern tón, hvert orð. Þetta voru mín skólaljóð.
Ég geng til biðstofu ásamt fimm öðrum blaða- og útvarpsmönnum, dönskum og íslenskum. Öll ætlum við að finna Bruce. Varpa ljósi á þennan óvenjulega lífsstíl. Þennan óvenjulega mann.
"Hann líkist ekkert sérstaklega þungarokkara," segir einhver þar sem við bíðum álengdar meðan Bruce gefur sig á tal við nokkra aðdáendur - sennilega Iron Maiden fremur en flugfélagsins Astraeus. Það er alveg rétt. Hann er reffilegur í einkennisklæðunum, karlinn. Hefði líklega verið úthýst á Donington '88 svona til fara. Bruce gefur sér góðan tíma með stuðningsliðinu, stillir sér upp fyrir myndatöku, gefur eiginhandaráritanir. Brosir og slær á létta strengi. Vanur maður.
Síðan gengur hann í salinn. Grípur samloku og hringir símtal. "Heyrðu, ég þarf að ræða við nokkra menn hérna. Hittumst eftir svona hálftíma," heyri ég hann segja. Hleypi brúnum. Sex blaðamenn á hálftíma. Það lítur ekki vel út. Iceland Express-menn snúast í kringum hann, samningalegir á svipinn. Bruce kemur svo fram fyrir skjöldu. "Hæ," segir hann, stutt og laggott. "Ég var ekki alveg klár á því að ég ætti að veita viðtöl hérna en vitiði hvað - kýlum á þetta," heldur hann áfram eins og að drekka vatn. Bersýnilega vandsleginn út af laginu.
Danirnir ganga fyrstir á hólm. Enda á heimavelli. Punda á hann. Bruce bifast ekki. Það kjaftar á honum hver tuska, þar sem hann situr þarna innst í biðsalnum. Menn mynda hann í gríð og erg. Ekkert virðist trufla.
Ég er fimmti í röðinni og hef örlitlar áhyggjur af því að kappinn sé farinn að lýjast. Það er jú liðinn tæpur klukkutími og tónleikar um kvöldið. Öðru nær.
Þegar við setjumst niður kemur kona aðvífandi. Baðar út öngum. Hún er starfsmaður á Kastrup og biður okkur óðamála um að færa okkur, komið sé að borðgöngu í flug til Helsinki í gegnum þennan biðsal. "Ekkert mál," segir Bruce og brosir til konunnar. Eftir stendur hún, álappaleg. Manninum er margt til lista lagt.
Við flytjum okkur yfir ganginn. Jukkar og Pekkar virða okkur fyrir sér. Undrandi. Myndasmiðurinn fylgir okkur nefnilega hvert fótmál. Bera þeir kennsl á Bruce? Erfitt að segja. En rokkelskir eru þeir, Finnarnir.
"Jú, tvímælalaust. Ég minnist þessa dags með mikilli hlýju. Fólkið, umgjörðin, atburðurinn. Þetta var frábært. En ef þú ert að spyrja um gæði tónlistarinnar, þá svara ég því til að við erum betri í dag."
- Virkilega?
"Já. Iron Maiden hefur ekki hljómað betur í fimmtán ár. Sköpunargleðin og krafturinn eru enn til staðar eins og menn munu heyra þegar nýja platan, Dance of Death, kemur út í september."
Það er þá enn þá loft í gömlu leðurlungunum. En hvaðan kemur innblásturinn, á hvaða tónlist hlustar hann í dag?
"Ég hef gaman af alls konar tónlist. Mest hlusta ég auðvitað á rokk, bæði gamalt og nýtt, en í seinni tíð hef ég líka yndi af tónlist þar sem stefnum er blandað saman. Ég hlusta talsvert á keltneska tónlist, t.d. hljómsveitina The Afro-Celt Sound System, sem blandar keltneskri tónlist saman við afrískan trumbuslátt og rokk."
Orka er orð sem verður tengt við Bruce Dickinson um aldur og ævi. Menn fá hálsríg af því að horfa á hann á sviði. Það er eins og að fylgjast með tennisleik. Ég færi þetta í tal og vísa til þess að félagar Bruce hjá Astraeus lýsi honum sem mesta orkubolta sem þeir hafi fyrir hitt. Má það vera?
"Jæja, gera þeir það, blessaðir," segir Bruce og skellir upp úr. "Það má vel vera."
- Svo ertu jafnan með ótal járn í eldinum. Hvaðan kemur þessi orka?
"Ég veit það ekki. Ég hef alltaf verið svona. Þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Betur get ég ekki svarað þessu," segir Bruce kíminn og ljóst er að ég kemst ekki lengra með þessa spurningu.
Hann brosir að þessari samlíkingu en viðurkennir að hann hafi haft mikinn áhuga á flugi í æsku. "Föðurbróðir minn var í flughernum og flýgur raunar enn og afabróðir minn vann sem flugvirki í seinna stríði. Hann fór með mig á margar flugsýningar þegar ég var barn. Það heillaði og mig dreymdi um að verða flugmaður. Þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára gaf ég þennan draum hins vegar upp á bátinn. Ég var arfaslakur í reikningi og eðlisfræði og taldi til lítils að reyna við flugprófið. Ég myndi örugglega falla."
- En hvað gerðist?
"Með tímanum áttaði ég mig á því að þetta væri vitleysa. Reikningur og eðlisfræði eru engin hindrun. Ef mann langar að fljúga, þá flýgur maður. Svo einfalt er það."
- Hvað ertu búinn að fljúga lengi?
"Ég fékk flugmannsréttindin fyrir tíu árum en hef haft atvinnu af þessu í tvö ár. Ég var búinn að fljúga smærri vélum um nokkurt skeið og langaði að stíga skrefið til fulls. Ég hef ekki efni á því að festa kaup á þotu, þannig að ég varð að fá mér vinnu," segir hann og brosir.
Við tölum ekki um það en líklegt er að Bruce sjái flugið fyrir sér sem fullt starf í framtíðinni. Varla stendur hann á sviðinu til eilífðar. Til þess að halda réttindunum þarf hann að fljúga. Halda sér við.
- Stóð aldrei til að taka upp þann þráð?
"Það reyndi aldrei á það. Ég fór í háskóla, eins og svo margir. Taldi nauðsynlegt að næla mér í gráðu af einhverju tagi. Ég hef alltaf haft áhuga á mannkynssögu og því lá sagnfræðin beint við. Þegar ég útskrifaðist var ég hins vegar kominn á bólakaf í tónlistina. Ég gekk fljótlega til liðs við Iron Maiden og í fimm ár gerðum við ekkert annað en semja og spila tónlist. Það var gríðarleg törn. Eftir það var ekki aftur snúið."
Skemmtilega sögu um próftökuna er að finna í bók um Iron Maiden, sem Mick nokkur Wall, hefur skráð nokkuð lipurlega. Þegar Bruce var að búa sig undir prófið fór þungarokksveitin Samson að bera víurnar í hann. Bráðvantaði nýjan söngvara og hafði heyrt í Bruce. Samson þessi var málsmetandi sveit á sínum tíma og hafði gefið út plötu. Bruce leist ekkert illa á þessi áform en bað menn að bíða í nokkrar vikur meðan hann læsi fyrir próf í sagnfræði. Munu þeir Samsynir hafa hrist lubbann yfir þessari undarlegu forgangsröðun. En Bruce gekk til liðs við sveitina - að prófi loknu. Dvöl hans var þó stutt í herbúðum Samson því Iron Maiden knúði fljótt dyra.
Textar Iron Maiden eru margir hverjir með sagnfræðilegu ívafi, fjalla meðal annars um Alexander mikla, ofsóknir á hendur indíánum í Ameríku, loftvarnir Breta í seinna stríði, flug Íkarusar, eins og áður er getið, og þannig mætti lengi telja. Kveikjan að einu lagi er meira að segja ljóð eftir 18. aldar skáldið Samuel Taylor Coleridge, Rime of the Ancient Mariner. Bruce gerir þó ekki mikið úr þessu. "Auðvitað skila áhugasvið manna sér í textagerð. Það er óhjákvæmilegt. Margt af þessu hafa aðrir hljómsveitarmeðlimir hins vegar samið."
Þar á hann einkum við Steve Harris, bassaleikara og stofnanda Iron Maiden, sem er ekki síður sagnfróður maður en Bruce.
Rifja má upp sögu sem Bruce sagði einhverju sinni. Hann var þá staddur í flugvél og handan við ganginn var maður að lesa bók og hló þessi lifandis ósköp. "Ég fór að velta því fyrir mér hvað maðurinn var að lesa og sá þá að hann var með bókina mína. Það var skrýtin tilfinning - en þægileg."
Af öðru sem Bruce hefur tekið sér fyrir hendur um dagana má nefna leikstjórn myndbanda og umsjón sjónvarps- og útvarpsþátta. Þá á hann þrjú börn með seinni eiginkonu sinni. Í fyrrnefndri bók Walls er þess sérstaklega getið að þau séu "fjörug". Kemur ekki á óvart.
"Iron Maiden hélt tónleika á Íslandi fyrir margt löngu og ég heillaðist strax af landinu. Ég átti svo tvo frídaga þar í tengslum við flugið fyrir um þremur mánuðum og keyrði þá talsvert um landið. Ekki dró það úr áhuganum. Við höfum verið að tala um það okkar á milli nokkrir flugmenn hjá Astraeus að það væri gaman að leigja litla vél og fljúga svolítið um landið. Skoða fjöll og firði. Ísland er stórbrotinn staður."
Og hann langar að gera fleira á Íslandi. "Iron Maiden var á sama hóteli og Björk eftir tónleika í Barcelona nýverið og við eyddum kvöldinu með hljómsveitinni hennar. Þá kom í ljós að einn af meðlimum hennar er fyrrverandi skylmingameistari Íslands. Það er ljóst að ég verð að koma til Íslands með gallann minn og hafa upp á íslenska skylmingaliðinu."
"Skylmingar áttu vel við mig og mér vegnaði ágætlega," segir hann eilítið feiminni röddu. Er greinilega lítið fyrir að ræða um vegtyllur. "Ég geri minna af þessu í seinni tíð. Það er alltaf gaman að skylmast þegar tími gefst til en þegar maður er orðinn 44 ára skorar maður ekki lengur þá bestu á hólm. Bestu skylmingamenn heims eru yfirleitt undir þrítugu."
Bruce virkar eigi að síður í góðu formi, grannur og stæltur. Skýtur það ekki skökku við, eftir rúma tvo áratugi í eldlínu rokksins? Nú segja menn að rokk og ról sé með afbrigðum óhollur lífsstíll.
"Þvert á móti. Rokk er allra meina bót. Það er flugið sem er hættulegt heilsunni. Rokkið heldur mér hraustum!"
Það var og. Það er við hæfi að ljúka spjallinu á þessum nótum. Enda korterið mitt á enda - og vel það. Ég kveð Bruce Dickinson með virktum. Þennan viðræðugóða og fjölhæfa mann. Og hann flýgur. Sína leið. Eins og örninn.
orri@mbl.is