Íslensk snjóbrettamynd komin út

Hluti af Team Divine.
Hluti af Team Divine.

Íslenska snjóbrettamyndin Óreiða er komin út en myndin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Myndin er gerð af hópnum Team Divine á Akureyri. "Myndin var tekin upp síðasta vetur, 2002-2003, aðallega í Hlíðarfjalli en líka mikið innanbæjar á Akureyri," segir Ásgeir Höskuldsson, formaður Brettafélags Íslands og félagi í Team Divine.

Team Divine er hópur brettastráka á Akureyri, sem flestir eru 12-17 ára gamlir. Ásgeir er elstur, 24 ára, en hann segir að milli 10 og 12 manns myndi kjarnann í hópnum.

Óreiða er 37 mínútur að lengd en á spólunni er líka að finna aukaefni, hjólabrettamynd, sem gerð var sumarið 2002 með sömu strákunum. "Í heildina er þetta klukkutími að lengd," segir Ásgeir.

Team Divine stendur algjörlega að framleiðslu myndarinnar, sem er gefin út af hópnum í samvinnu við Brettafélag Íslands. "Við gerum þetta sjálfir. Við fengum líka lánaðar vélar frá PoppTíví en meira en helmingurinn er tekinn upp á venjulegar JVC-vélar sem styðjast við DVCAM-spólur. Síðan er einn 16 ára félagi okkar, sem hefur kennt sér sjálfur, sem klippir þetta," segir Ásgeir, sem segir spóluna hafa fengið góðar viðtökur. Meðal annars verður fjallað um myndbandið og nýjan og endurbættan vef Brettafélagsins í þekktu snjóbrettablaði, Onboard Magazine.

Ásgeir segir að margir stundi snjóbretti á Akureyri. "Þetta hefur þróast þannig hér á Íslandi síðustu tvo vetur. Það er búið að vera lítið opið fyrir sunnan. Það er meiri aðstaða og aðbúnaður fyrir brettafólk hér. Þess vegna er kominn upp hérna sterkur hópur á aldrinum 12 til 17 ára hér í brettunum," segir hann. Alls eru 490 manns skráðir í Brettafélag Íslands en Ásgeir segir að um 100 manns séu virkir félagar.

Yfir bíla og niður handrið

Sumir strákarnir í hópnum eru í heimsklassa í svokölluðu "jibbi" en myndin sýnir mikið af því. "Í myndinni er mikið af því sem við köllum "jibb". "Jibb" er að renna sér yfir allar hindranir, sem eru fyrir framan mann og gera ákveðin "trikk". Við getum stundað það hérna innanbæjar. Finnum okkur handrið niður tröppur, bílhræ eða eitthvað og svo er settur upp smá pallur fyrir aðkomu. Til dæmis er hægt að fara beint yfir bílinn, gera trikk þar eða stökkva yfir hann," tekur Ásgeir sem dæmi. "Síðasti vetur einkenndist af litlum snjó en þá vorum við mikið innanbæjar. Við notum stundum snjó frá skautasvellinu eða förum með kerru upp í fjall og náum í snjó og gerum eitthvað úr því. Við deyjum ekki ráðalausir. Við erum ekki eins og skíðafólkið sem þarf heila brekku. Við þurfum ekki mikið til að gera eitthvað," segir hann.

Í anda Kjánaprikanna

Myndbandið er m.a. ætlað sem kynningarefni. "Við gáfum þetta út til gamans og myndbandið er líka ætlað sem kynningarefni fyrir strákana þannig að þeir hafi eitthvað milli handanna ef þeir vilja kynna sig fyrir fyrirtækjum varðandi styrki," segir hann og bætir við: "Það er líka mikil Jackass-stemmning í þessu eins og er í svona snjóbrettamyndum. Það er menningin í kringum þetta."

Áhugasamir geta þessa dagana séð brot úr myndinni í Optical Studio Sól í Smáralindinni.

Óreiða fæst í Brim við Laugaveg og í Kringlunni og Sportveri á Akureyri og kostar 1.500 krónur. www.bigjump.is

ingarun@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka