Íslenska snjóbrettamyndin Óreiða er komin út en myndin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Myndin er gerð af hópnum Team Divine á Akureyri. "Myndin var tekin upp síðasta vetur, 2002-2003, aðallega í Hlíðarfjalli en líka mikið innanbæjar á Akureyri," segir Ásgeir Höskuldsson, formaður Brettafélags Íslands og félagi í Team Divine.
Team Divine er hópur brettastráka á Akureyri, sem flestir eru 12-17 ára gamlir. Ásgeir er elstur, 24 ára, en hann segir að milli 10 og 12 manns myndi kjarnann í hópnum.
Óreiða er 37 mínútur að lengd en á spólunni er líka að finna aukaefni, hjólabrettamynd, sem gerð var sumarið 2002 með sömu strákunum. "Í heildina er þetta klukkutími að lengd," segir Ásgeir.
Team Divine stendur algjörlega að framleiðslu myndarinnar, sem er gefin út af hópnum í samvinnu við Brettafélag Íslands. "Við gerum þetta sjálfir. Við fengum líka lánaðar vélar frá PoppTíví en meira en helmingurinn er tekinn upp á venjulegar JVC-vélar sem styðjast við DVCAM-spólur. Síðan er einn 16 ára félagi okkar, sem hefur kennt sér sjálfur, sem klippir þetta," segir Ásgeir, sem segir spóluna hafa fengið góðar viðtökur. Meðal annars verður fjallað um myndbandið og nýjan og endurbættan vef Brettafélagsins í þekktu snjóbrettablaði, Onboard Magazine.
Ásgeir segir að margir stundi snjóbretti á Akureyri. "Þetta hefur þróast þannig hér á Íslandi síðustu tvo vetur. Það er búið að vera lítið opið fyrir sunnan. Það er meiri aðstaða og aðbúnaður fyrir brettafólk hér. Þess vegna er kominn upp hérna sterkur hópur á aldrinum 12 til 17 ára hér í brettunum," segir hann. Alls eru 490 manns skráðir í Brettafélag Íslands en Ásgeir segir að um 100 manns séu virkir félagar.
Áhugasamir geta þessa dagana séð brot úr myndinni í Optical Studio Sól í Smáralindinni.
Óreiða fæst í Brim við Laugaveg og í Kringlunni og Sportveri á Akureyri og kostar 1.500 krónur. www.bigjump.is |
ingarun@mbl.is