Sænsk yfirvöld vara menn nú við drukknum elgjum sem geti verið árásargjarnir og leggi jafnvel til atlögu gegn mannfólki, segir á vefsíðu norska blaðsins Aftenposten. Á fimmtudag réðst hamslaus elgur á konu í einbýlishúsahverfi í borginni Karlshamn í sunnanverðri Svíþjóð.
Elgurinn reyndi að sögn Blekinge Läns Tidning að sparka í konuna og er talið að dýrið hafi orðið drukkið af því að éta gerjaða ávexti sem fallið hafa af trjám.
Nokkuð mun vera um það að dýr verði vel hífuð á haustin af því að éta morkin ber og ávexti sem hafa gerjast og myndað alkóhól. Sami vandi hefur komið upp í grennd við Kristiansand í Noregi þar sem ölóðir elgir hafa valdið óskunda. "Sumir elgir eru sallarólegir með víni en aðrir verða árásargjarnir," sagði dýralæknirinn Paul Stamberg við Aftenposten. "Þeir eru alveg eins og mennirnir."