Hinn ungi og vinsæli leikari Colin Farrell segir að reyndari leikari og stórstjarna í áratugi, Al Pacino, hafi gefið sér góð ráð þegar þeir unnu saman að kvikmyndinni The Recruit. Vinur, ef ég má ráða þér heilt þá skalt þú ekki undir nokkrum kringumstæðum fara í bólið með þeim leikkonum sem þú ert að vinna með. Það kemur róti á hugann og gerir vinnuna tætingslega. En hinn ungi og ákafi Farrell gleymir orðum vinar síns, sem hann segist þó dá mjög mikið, af og til. Hann var ekki búinn að vera lengi í Paradís (Hollywood) þegar það orð fór af honum að hann væri ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum.
Leikkonan Angelina Jolie leikur móður Farrells í kvikmyndinni Alexander mikli sem tekin verður til sýninga innan skamms. Ödipusarduldin virðist hafa heltekið Farrell í hlutverki Alexanders því sterkur orðrómur er á kreiki um að hann (þ.e. Farrell) hafi gert sér meira en lítið dælt við móður sína (lesist Jolie) meðan á tökum myndarinnar stóð. Vei, ó vei.
En allt er í heiminum hverfult. Daginn eftir að sást til hins hamingjusama leikarapars kelandi og knúsandi hvort annað í anddyri hins glæsilega Hilton-hótels í Lundúnum sást aftur til ferða Farrells á sama hóteli. Gefum sjónarvotti orðið:
„Colin Farrell kom aftur á hótelið nóttina eftir að hann og Angelina Jolie eyddu þar tíma saman - en nú með allt annarri konu og eins og það væri ekki nóg kom hann nóttina næstu með enn eina konuna. Í raun má segja að hann hafi verið með nýrri konu hverja nótt alla vikuna.“
Colin Farrell! Það vill enginn vera með nein leiðindi en hvað með ráðleggingar hins lífsreynda vinar þíns?