Leigh Walker, markvörður enska utandeildarliðsins Scarborough, sem stóð svo eftirminnilega í hinu rándýra liði Chelsea í bikarkeppninni um síðustu helgi, er afar sár út í móður sína.
Eftir leikinn fékk Walker leikmenn Chelsea til að rita nöfn sín á keppnistreyju sína en honum láðist að segja móður sinni frá því að treyjan mætti alls ekki þvo. Eins og jafnan tók móðir Walkers upp úr íþróttatöskunni og lét í vélina en því miður fyrir markvörðinn eru nöfn leikmanna Chelsea ekki lengur á peysunni.
"Ég varð ansi svekktur þegar ég áttaði mig á því að treyjan fór í þvott því hún átti að vera til minningar um stærsta leikinn sem ég hef tekið þátt í," sagði Walker við Daily Telegraph.