Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS baðst í gærkvöldi afsökunar á óvæntum endi á skemmtiatriðum sem boðið var upp á í hálfleik úrslitaleiks bandarísku ruðningsdeildarinnar, Super Bowl, þegar söngvarinn Justin Timberlake reif hluta af fatnaði söngkonunnar Janet Jackson þannig að annað brjóst hennar beraðist. Margir áhorfendur hringdu til stöðvarinnar og lýstu óánægju sinni með þetta.
Söngvararnir voru að syngja lag saman og í lok lagsins greip Timberlake í brjóstahlíf á leðurtoppi Jacksons og og beraði hægra brjóst hennar. Sjónvarpsstöðin hætti strax að sýna atriðið og minntist ekki á málið í útsendingunni.
Timberlake sagðist ekki hafa gert þetta viljandi og baðst í yfirlýsingu velvirðingar á því ef einhverjum hefði verið misboðið vegna „bilunar í klæðnaði" í atriðinu. „Það var óviljandi og er harmað," sagði hann.
LeslieAnne Wade, talsmaður CBS, sagði að yfirmenn sjónvarpsstöðvarinnar hefðu verið viðstaddir æfingu á hálfleiksatriðunum og ekkert hefði bent til að þetta myndi gerast. „Þetta uppfyllti ekki þær kröfur sem CBS gerir til útsendinga og við viljum biðja hvern þann, sem var misboðið, afsökunar.
Það var MTV sem sá um sýninguna en þar komu einnig fram P. Diddy, Nelly og Kid Rock. MTV sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem beðist er afsökunar og sagt að um hafi verið að ræða algert óviljaverk.