Söngvarinn David Bowie hefur boðað forföll á tónlistarhátíðina í Hróarskeldu sem fram fer í samnefndum bæ í Danmörku um helgina.
Það er samkvæmt læknisráði sem Bowie tók ákvörðun um að mæta ekki en hann var fyrr í vikunni lagður inn á sjúkrahús í Þýskalandi með verki í öxl sem orsökuðust af klemmdri taug. Hann þurfti jafnframt að hætta við tónleika í Prag í síðustu viku af heilsufarsástæðum.
Talsmenn söngvarans, sem er 57 ára, harma ákvörðunina sem og aðstandendur Hróarskelduhátíðarinnar en Bowie átti að vera stærsta númerið næstkomandi föstudagskvöld á svokölluðu appelsínugula sviði, sem er það stærsta á hátíðinni.
www.roskildefestival.dk |