Brotist var í vikunni inn í íbúð í Hollywood, sem systurnar Paris og Nicky Hilton eiga. Var skartgripum, úrum og tölvu stolið. Nicky Hilton kom heim snemma á fimmtudagsmorgun og sá þá að brotist hafði verið inn.
Lögregla segir að verðmæti munanna sem stolið var sé mikið en vill ekki nefna upphæð. Þá sé ekki ljóst hvað hafi verið í tölvunni sem stolið var.
Systurnar eru þekktar í samkvæmislífi Los Angeles og Paris Hilton hefur einnig komið fram í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.